Hægt er að lesa nánar um þemað í leiðara skjaladagsins http://www.skjaladagur.is/ og kanna þar hvað er á dagskrá hjá þeim skjalasöfnum sem taka þátt í skjaladeginum.
Héraðsskjalasafnið á Akureyri tekur þátt í þessum vef og rifjar þar upp þrjá gleymda atburði. Þar er rifjuð upp fyrsta kvikmyndasýning á Íslandi, en hún var einmitt á Akureyri árið 1903. Annar atburður sem tekinn er fyrir er hvalveiðiævintýri Jakobs V. Havsteen árið 1882, en þar má sjá frásögn hans sjálfs af þessum atburði. Í þriðja lagi eru rifjuð upp hátíðahöld í tilefni af 100 ára afmæli Akureyrarkaupstaðar árið 1962.
Til þess að skoða enn betur þessi afmælishátíðahöld hefur verið sett upp sýning á skjölum, myndum og munum í Héraðsskjalasafninu í Brekkugötu 17. Þar er hægt að rifja upp hina veglegu dagskrá sem stóð yfir í rúma viku og margir minnast með mikilli ánægju en aðrir hafa kannski gleymt eða aldrei heyrt um. Á skjaladaginn 8. nóvember er opið kl. 12:00 - 17:00 og þá verður heitt á könnunni en sýningin stendur síðan áfram til 28. nóvember.
Tilgangur norræna skjaladagsins er að kynna starfsemi skjalasafnanna í landinu og leggja jafnframt áherslu á sameiginlega þætti í sögu Norðurlandanna. Með kynningardegi sem þessum vill starfsfólk skjalasafna vekja athygli á starfsemi sinni og hlutverki þeirra fyrir menningu og sögu byggðarinnar á safnsvæðinu.