Á fundi framkvæmdaráðs Akureyrarbæjar nýlega var tekið fyrir erindi frá Glerárskóla, þar sem skólinn óskar eftir því að taka Kvenfélagsreitinn við Skarðshlíð í fóstur. Framkvæmdaráð tók vel í erindið og var forstöðumanni umhverfismála falið að vinna áfram að málinu. Eyrún Skúladóttir skólastjóri Glerárskóla, segir að hugmyndin sé að nýta Kvenfélagsreitinn til meiri útikennslu, en að ekki hafi borist svar við erindinu. Í erindi skólans kemur m.a. fram að Glerárskóli hafi fastmótaða skólasýn sem leggi áherslu á hug, hönd og heilbrigði. Einn þáttur í skólastarfinu sem styðji markmið skólasýnarinnar sé útikennsla. Með afnotum að Kvenfélagsreitnum sé hægt að útvíkka enn frekar þann möguleika.
Sú hugmynd felur í sér að hugsa um reitinn og nýta hann með margvíslegum hætti. Útikennsluteymi skólans leggur til að aðstaðan verði nýtt til leikja og fyrir einfalt eldstæði að hætti skáta. Auk þess yrði hannað og smíðað borð ásamt bekkjum. Hugmyndin er að hafa eldstæðið yst og efst í garðinum, rétt við trjáþyrpingu sem þar er og þar yrðu einnig útihúsgögn og hugsanlega einföld leiktæki sem nemendur smíða sjálfir.
Ennfremur kemur fram í erindi Glerárskóla, að gaman væri að breyta göngustígnum sem liggur frá veginum efst í brekkunni og niður að túninu. Stígurinn er beinn og brattur en æskilegt væri að hann félli betur að landslaginu og lægi í sveigum niður brekkuna.