Glerárdalur friðlýstur sem fólkvangur

Sigrún Magnúsdóttir og Eiríkur Björn Björgvinsson undirrita samkomulagið. Hjá þeim stendur Kristín L…
Sigrún Magnúsdóttir og Eiríkur Björn Björgvinsson undirrita samkomulagið. Hjá þeim stendur Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar. Mynd: Ragnar Hólm.

Samkomulag um að Glerárdalur var friðlýstur sem fólkvangur var undirritað í gær. Það voru Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri og Sigrún Magnúsdóttir ráðherra umhverfis- og auðlindamála sem skrifuðu undir.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda Glerárdal og aðliggjandi fjalllendi til útivistar almennings, náttúruskoðunar og fræðslu. Friðlýsingin verndar auk þess land sem er að mestu ósnortið með fjölbreyttum jarðmyndunum og gróðurfari og er þannig stuðlað að því að varðveita  líffræðilega fjölbreytni og breytilegar jarðmyndanir.

Umhverfisstofnun og Akureyrarbær hafa unnið að undirbúningi friðlýsingarinnar en tillaga að friðlýsingu var fyrst samþykkt á opnum hátíðarfundi bæjarstjórnar Akureyrar á 150 ára afmælisdegi Akureyrar.

Þegar friðlýsing fólkvangs í Glerárdal hefur verið staðfest verða friðlýst svæði á Íslandi 114 talsins og flatarmál þeirra samtals 20.852 km2.

Í ávarpi sínu við þetta tilefni sagði Eiríkur Björn meðal annars: "Náttúra Íslands er ómetanleg auðlind. Hreint loftið, silfurtærar ár, bláminn í fjarska… Erlendir gestir okkar eru agndofa og auðvitað er þetta auðlind sem við þurfum að standa vörð um. Við þurfum að friða ákveðin svæði, varðveita gróðurfarið þar, dýralífið og einstaka náttúru. Þannig svæði er Glerárdalur. Það er svæði sem þarf að verja fyrir átroðningi, hlúa vel að, en jafnframt gera aðgengilegt öllum almenningi sem vill njóta náttúrunnar."

 

Nýjast