Glæsimeyjar í aldarfjórðung

Glæsimeyjar hafa haldið saman í um það bil aldarfjórðung og verða aldrei leiðar hvor á annarri. Mynd…
Glæsimeyjar hafa haldið saman í um það bil aldarfjórðung og verða aldrei leiðar hvor á annarri. Mynd/aðsend

Vikublaðið sló á þráðinn til Friðriku Baldvinsdóttur í byrjun vikunnar þar sem hún var stödd á Tenerefe ásamt fríðum hópi kvenna sem kenna sig við Glæsimeyjar. Hún segir að hópurinn hafi haldið saman frá lokum síðustu aldar og staðið fyrir óvissuferðum í öll þessi ár.

„Við erum staddar út á Tenerife, 10 konur sem komum frá Íslandi og hittum þá elleftu hér úti. Við erum Glæsimeyjar og erum búnar að vera það alveg síðan 1996 þegar við stofnuðum þennan hóp,“ segir Friðrika sem var að gera sig klára fyrir kvöldverð þegar blaðamaður heyrði í henni.  

Friðrika segir jafnframt að stofnun hópsins hafi borið að með óvæntum hætti á sínum tíma og að minnstu hafi mátt muna að engin hafi mætt á stofnfundinn þar sem þær héldu að um hrekk væri að ræða.

„Sagan  er sú að við vorum einar 16 konur sem fengum bréf einn daginn árið 1996 og í því voru leiðbeiningar um að við ættum að hittast á hótelinu á Húsavík á ákveðnum degi. Svo var gefið upp símanúmer sem náttúrlega engin okkar þorði að hringja í til að byrja með. Við vorum alveg vissar um að núna væri einhver að gera at í okkur,“ segir Friðrika hlæjandi og bætir við að ekki hafi alveg allar vogað sér að mæta af þeim sem fengu þetta dularfulla bréf.

„Ég held að við höfum endað 14 sem mættum upp á hótel. Þá var þetta þannig að þegar við hringdum loks í númerið sem upp var gefið þá var það á stöð 2. Það var nefnilega vinkona einnar úr hópnum okkar sem var í svona hópi í Reykjavík og vann á stöð 2. Þetta var nú byrjunin á þessu öllu saman og síðan höfum við verið alltaf með svona óvissuferðir,“ segir Friðrika og útskýrir enn frekar að síðustu helgina í nóvember hittist alltaf tvær úr hópnum í sérstakri nefnd og skipuleggja næstu óvissuferð.  

„Svo höfum við bara verið að fá okkur gott að borða, gera eitthvað skemmtilegt og fá okkur vín í glas. Þetta er ekkert flókið og búið að endast í allan þennan tíma,“ útskýrir Friðrika að lokum áður en hún skundar í veislukvöldverð á Tene.


Athugasemdir

Nýjast