Glæsileg páskadagskrá á Græna Hattinum á Akureyri

Glæsileg páskadagskrá verður á Græna Hattinum næstu daga og hefjast herlegheitin strax í kvöld með lokatónleikum Hvanndalsbræðra kl. 22.00. Þar sem það er mikið í tísku að vera með svokallað "Comeback" þá verða Hvanndalsbræður með sitt fyrsta kombakk strax á morgun skírdagskvöld og hefjast þeir tónleikar á sama tíma.  

Á föstudaginn langa ætlar Guðrún Gunnarsdóttir að vera með englatónleika við kertaljós, þar sem hún flytur efni af plötum sínum; Umvafin Englum, Óður til Ellýar, Eins og vindurinn og af væntanlegri plötu sinni, þar sem hún syngur lög eftir Cornelis Vreesvjik. Tónleikarnir hefjast kl.21.00. Á laugardagkvöld verður hljómsveitin Mannakorn með tónleika kl. 21.00. Sveitin er með nýja plötu í smíðum sem ber nafnið Kraftaverk og frumflytur efni af henni sem og gömlu perlurnar sem eru ómissandi í þeirra dagskrá. Hljómsveitina skipa þeir Magnús Eiríksson gítar, söngur, Pálmi Gunnarsson bassi, söngur, Agnar Már Magnússon Hammond orgel og Eiríkur Örn Magnússon trommur. Á sunnudagskvöld kl. 21.00 er það kostulegasti dúett landsins, Hundur í Óskilum, sem treður upp á Græna Hattinum. Tónleikar þeirra félaga eru óborganlegir og eiga eftir að koma skemmtilega á óvart.

Nýjast