Gjaldtaka á bílastæðum hefst í janúar

Mynd/akureyri.is
Mynd/akureyri.is

Gjaldskylda á bílastæðum í miðbæ Akureyrar verður innleidd um miðjan janúar og tekur að fullu gildi í febrúar. Greint er frá þessu í tilkynningu.

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti í nóvember sl. nýja samþykkt fyrir bifreiðastæðasjóð Akureyrarbæjar og nýja gjaldskrá fyrir gjaldskyld bílastæði, bílastæðakort íbúa og bílastæðakort á fastleigusvæðum.  

  • Tvö ný gjaldsvæði í miðbæ Akureyrar, P1 (200 kr./klst.) og P2 (100 kr./klst.), og er gjaldskyldutími kl. 10-16 virka daga.
  • Afmörkuð bílastæði innan gjaldsvæðanna, samsíða götum, eru með 2 klst. hámarkstíma og eru slík tímabundin gjaldsvæði merkt með skiltum.
  • Einfaldast er að nota rafrænar greiðsluleiðir í snjallsíma (appi) til að greiða fyrir afnot af bílastæðum. EasyPark og Parka bjóða upp á slíka þjónustu á Akureyri.
  • Þrír stöðumælar (greiðslustaurar) verða staðsettir í miðbæ Akureyrar, við Skipagötu, Túngötu og Gilsbakkaveg. 
  • Stæðiskort fyrir hreyfihamlaða veitir heimild til að leggja í sérmerkt bílastæði og í gjaldskyld bílastæði án endurgjalds.
  • Um 600 gjaldfrjáls bílastæði eru í og við miðbæinn.

Rafræn íbúakort og fastleigukort

Íbúar með lögheimili á tilteknum svæðum í miðbænum sem hafa ekki aðgang að bifreiðastæði eiga kost á rafrænu bílastæðakorti. Gjald fyrir slík íbúakort er 6.000 kr. á ári. Samkvæmt nýju bílastæðakerfi verða tvö fastleigusvæði í miðbænum. Á svæði F1 (við Skipagötu og Hofsbót) er gjaldið 12.000 kr. á mánuði og á svæði F2 (við Túngötu) er það 6.000 kr. á mánuði.

Íbúa- og fastleigukort sem eru með gildistíma fram að áramótum gilda áfram þangað til nýtt kerfi tekur gildi um miðjan janúar. Sótt verður um rafræn íbúakort og fastleigukort í þjónustugáttinni.

Undirbúningur í fullum gangi

Um þessar mundir er unnið að undirbúningi rafrænna greiðslulausna og er stefnt að því að fólk geti byrjað að nota smáforrit EasyPark eða Parka um miðjan janúar til að greiða fyrir notkun á bílastæðum. Íbúar eru hvattir til að kynna sér þjónustu þessara fyrirtækja og ná í smáforrit í símann sinn. Á næstu dögum verða settar upp merkingar og skilti í miðbænum og síðan verður auglýst þegar gjaldtakan hefst.

Stöðumælar (greiðslustaurar) koma ekki til landsins fyrr en í febrúar og því eru nokkrar vikur í að þeir verði settir upp. Þangað til verður gefinn aðlögunartími og verða ekki lögð á aukastöðugjöld (stöðumælasektir) fyrr en allur búnaður er kominn í notkun. Hins vegar eru það vinsamleg tilmæli til þeirra sem nota gjaldskyld bílastæði að greiða fyrir þau með smáforriti í símanum um leið og merkingar þess efnis eru komnar upp.


Athugasemdir

Nýjast