Gjald fyrir skráningu katta er of hátt

Ragnheiður Gunnarsdóttir skrifar

Sorgleg frétt birtist á ruv.is, 6. desember sl. Þar var fjallað um að aukning hefði orðið í að kettir hefðu verið skildir eftir i hesthúsahverfunum á Akureyri. Fréttin af ruv.is hljómaði svona:

Borið hefur á því að fólk losi sig við ketti og kettlinga í hestahúsahverfi Akureyrar. Bærinn er nú í átaki við að losa hestamenn við kettina sem eru bæði grimmir og svangir enda ekkert fyrir þá að hafa í hesthúsunum.

Hestamenn í hesthúsahverfinu Breiðholti á Akureyri hafa orðið varir við marga ketti í hesthúsunum nú í haust. Að sögn Jóns Birgis Gunnlaugssonar, forstöðumanns umhverfismála hjá Akureyrarbæ, eru kettirnir grindhoraðir og viðskotaillir. „Við höfum fengið vitneskju um það að fólk hafi verið að losa sig við kettlinga og ketti í hesthúsahverfum bæjarins og Kjarnaskógi,“ segir Jón Birgir. „Eins og staðan er í dag þá erum við í smá aðgerðum í öðru hesthúsahverfi bæjarins og höfum á tveimur sólarhringum tekið 12 kettlinga og ketti."

Að sögn Jóns Birgis er um töluverðan kostnað fyrir bæjarfélagið að ræða því að bærinn borgar fyrir aflífun á köttunum. Sjálfur skilur hann ekki hvernig fólki dettur í hug að losa sig við dýrin með því að setja þau á guð og gaddinn. „Þetta er hrein og klár mannvonska að fara svona með dýrin. Þau hafa ekkert að borða í hesthúsahverfunum og þeir kettir sem við höfum verið að taka núna hafa verið mjög svangir og grimmir.“

Einnig var talað við starfsmann Akureyrarbæjar á Rás 2 og þar kom fram að þeir áttuðu sig ekki á því af hverju fólk vildi ekki skrá kettina sína. Ástæðan er hrein og klár; Gjaldið er alltof hátt og ólöglegt í þokkabót. Fólk hefur ekki efni á að borga 6 þúsund krónur á kött og í ofanálag um 3 þúsund krónur í tryggingu. Ef að kettir bæjarins eru um 2000 fá þeir 12 milljónir í vasann, þegar þeir þurfa samkvæmt þeirra eigin útreikningum um 3,7 milljónir. Ef kettirnir eru fleiri en 2000 getur fólk sjálft reiknað hversu mikla upphæð bærinn er að fá frítt frá kattaeigendum. Skráningargjaldið sem er 10 þúsund krónur er það langhæsta á landinu og eina sveitarfélagið sem lætur greiða skráningargjald og árgjald sama árið er Akureyrarbær. Það sér það hver maður að bæjarstjórn Akureyrar og framkvæmdadeildin ætla sér að græða á kattaeigendum. Þetta er ástæðan fyrir því að fleiri skráningar hafa ekki komið inn. Fólk vill ekki láta vaða yfir sig. Ég mun með glöðu geði skrá mína ketti þegar Akureyrarbæ hefur verið gert að lækka gjaldið. Ég hef kært þá til umhverfisráðuneytisins fyrir ólöglega gjaldskrá og er fullviss að þeir munu þurfa að lækka gjaldið.

Ótrúlegt þykir mér að bæjarstjórnin og framkvæmdadeildin sjái ekki samhengið á milli þessara hrikalegu aðgerða fólks sem samkvæmt þeim hefur aukist og þessa háa gjalds sem þeir hafa sett á. Ég hef áður skrifað greinar um þetta mál þar sem ég varaði við að fjöldi útigangskatta myndi yrði meiri ef gjaldið yrði haft svona hátt. Og hvað er að gerast núna? Nákvæmlega það. Þessar reglur eru ekki gerðar fyrir kisurnar, heldur gerðar fyrir Akureyrarbæ að græða á þeim. Ég hef ekkert á móti reglum um kattahald en þær verða að vera innan skynsamlegra marka sem er langt því frá að gerast hér í bæ. Ég vona innilega að bæjarstjórn Akureyrar sjái að þetta gjald er ekki að virka og hugsi um kisurnar, en ekki aurana.

Höfundur er kattaeigandi.

Nýjast