Þeir Kazumi og Björn munu leika vítt og breytt um bæinn við allskyns uppákomur. Gítaristum sem eiga sterka tengingu við Akureyri verður gert hátt undir höfði. Þar á meðal má nefna Snorra Guðvarðarson, Kristján Edelstein, Matti Tapani Saarinen, Gunnar Ringsted, Mána Konráðsson, Andra Ívarsson og fleiri. Gítarhátíðin er í samstarfi við Tónlistarskóla Akureyrar og mun Kazumi halda fyrirlestra ásamt því leika fyrir nemendur skólans. Í rythmasveitinni spila tveir af aðal kennurum Tónlistarskólans, þeir Halldór G. Hauksson og Stefán Ingólfsson, deildarstjóri. Stefnt er að því að bærinn iði allur af gítarspili dagana 11. til 13. maí og Græni hatturinn verður heiti pottur gítarveislunnar. Fimmtudaginn 12. maí verða þar tónleikar kl. 21.00 og þá koma fram; Kazumi, Björn, Snorri, Gúi, Matti, Andri, Máni, Krissi, Halli Gulli, Stebbi. Daginn eftir, föstudaginn 13. maí, verða aðrir tónleikar á Græna hattinum kl. 21.00 en þá koma fram Kazumi Watanabe og Björn Thoroddsen ásamt hljómsveit og gestum. Miðaverð á hvora tónleika fyrir sig er kr. 2.000.-.
Græni hatturinn hefur haldið úti öflugu menningarlífi í bænum síðan almennir tónleikar hófust þar. Það eru fáir íslenskir tónlistarmenn úr rythmíska geiranum sem ekki hafa leikið þar. Allir íslenskir tónlistarmenn bera mikla virðingu fyrir Græna hattinum og er staðurinn orðin ákveðið kennileiti í rythmískri samtímatónlist. Dagskrá gítarhátíðarinnar mun höfða til breiðs hóps, enda verður allt frá frá háklassískum gítarleik yfir í „You Really Got Me" með Kinks á boðstólum.
Kazumi Watanabe (1953) er líklegast þekktasti gítarleikari Japana í dag. Kazumi nam hjá Sadanori Nakamure sem kallaður er guðfaðir japanska gítarleiksins. Kazumi þótti undrabarn á sjöunda áratugnum og gaf út sína fyrstu sólóplötu 1971. Árið 1979 gerði hann tímamótaplötuna „KYLYN" sem þykir eitt af meistaraverkum fusion sögunar. Kazumi hefur hljóðritað og leikið með mönnum á borð við Steve Gadd, Tony Levin, Jeff Berlin, Bill Bruford, Sly and Robbie, Wayne Shorter, Patrick Moraz, Marcus Miller, Richard Bona og Peter Erskine. Kazumi lék á sínum tíma með einni frægustu jazzhljómsveit allra tíma, Steps Ahead, og gerði með þeim eina plötu. Alls 24 sinnum hefur Kazumi verið valinn jazzmaður ársins í Swing Journal. Síðan 1996 hefur Kazumi starfað sem prófessor við Senzoku Gakuen College ásamt því að leika út um allan heim.