Girnilegir silungsréttir og vanilluskyrkaka
Listakonan Linda Björk Óladóttir tók áskorun Óðins Valssonar og hún er hér mætt með girnilegar uppskriftir í matarkrók vikunnar. Ég elska uppskriftir sem eru auðveldari en þær líta út fyrir að vera. Í sumar hef ég verið svo heppin að fá silung á tvo mismuandi vegu sem mig langar að deila með ykkur. Að öllu jöfnu er ég ekki mikil silungsmanneskja, en þessir voru bara algjört sælgæti og ekki spillti fyrir að uppskriftirnar voru eins auðveldar og hugsast getur, segir Linda.
Sweet chili silungur
800-1000 g af silungsflökum, beinhreinsuðum
1 dl Sweet chili sósa (eða eftir smekk)
Sjálvarsalt
Smellið silungsflökunum á álbakka, berið Sweet chili sósuna á silungsflökin og saltið smá. Setjið álbakkann grillið í ca. 10 mínútur eða þar til silungurinn er eldaður í gegn.
Gerist varla auðveldara og kemur virkilega á óvart!
Mango Chutney silungur
800-1000 g af silungsflökum, beinhreinsuðum
Salt og pipar
2 dl af mangó chutney
Safi úr einni lime
2-3 msk. af söxuðum pistasiuhnetum
Ferskt saxað kóriander (má sleppa)
Takið skelina af pistasíuhnetunum og saxið. Setjið silungsflökin á álbakka, saltið, piprið og kreistið safa úr einni lime yfir fiskinn. Setjið svo mangóchutney-ið yfir, þá kóríander og pistasíuhneturnar. Setið álbakkann á grillið í 10-15 mín. Algjörlega æðislegt :D
Svo get ég nú ekki verið þekkt fyrir annað en að setja inn einn desert :D Þessa uppskrift fékk ég hjá ömmu minni sem er líka mjög hrifin af öllu sem að "gerir sig svona sjálft". Ég gerði þessa í matarboði í síðustu viku og sá mér leik á borði að þá næði ég mynd af henni. Það fór nú ekki betur en svo að kakan var hálfétin þegar ég mundi eftir að taka myndina. Já hún er SVONA góð.
Vanilluskyrkaka með kirsuberjasósu
1 pakki póló kex
50 g smjör (má sleppa)
1 lítil dós vanilluskyr
1/4 l rjómi
1 krukka kirsuberja sósa
Áður en þú opnar póló kexpakkann myldu kexið með því að hnoða og kreista pakkann. Opnaðu svo pakkann og heltu mulda kexinu í eldfast mót eða víða skál. Ef þú gerir kökuna daginn áður er alveg óþarfi að nota smjörið, en ef þú ert á síðustu stundu þá mæli ég með að þú notir ca. 50 g bráðið smjör og hellir yfir kexið, til að kakan verði ekki þurr. Þeytið rjómann og blandið saman við skyrið. Smyrjið ofan á kexið. Geymið kökuna í kæli og hellið kirsuberjasósunni yfir rétt áður en kakan er borin fram. Einnig má bera sósuna fram sér og setja jafnvel ávexti yfir kökuna.
Ég skora á Olgu Ásrúnu Stefánsdóttur, iðjuþjálfa og forstoðukonu félagsmiðstöðva eldri borgara á Akureyri. Hún verður ekki í vandræðum með að draga fram eitthvað af sínum gómsætu uppskriftum.