Getum unnið öll lið á heimavelli
KA/Þór á erfiðan heimaleik fyrir höndum í dag er liðið tekur á móti Stjörnunni í KA-heimilinu kl. 16:00 í N1-deild kvenna í handknattleik. Eftir fjórar umferðir er Stjarnan í fimmta sæti deildarinnar með 4 stig en KA/Þór situr í sjöunda sæti með 2 stig. Stjörnustúlkur hafa á að skipa sterku liði þó félagið hafi misst öfluga leikmenn í sumar vegna óvissuástandsins með þátttökuna í vetur. Þungur róður býður norðanstúlkna, ekki síst í ljósi þess að liðið verður án Ásdísar Sigurðardóttur sem stödd er erlendis og er það vandfyllt skarð í liði heimamanna.
Þetta verður erfiður leikur en við eigum hins vegar möguleika gegn öllum liðum á heimavelli, segir Kolbrún Gígja Einarsdóttir leikmaður KA/Þórs um leikinn í dag. Það er ljóst að við þurfum að byrja leikinn af krafti frá fyrstu mínútu ef við ætlum að eiga möguleika. Við höfum verið að spila illa framan af leik í undanförnum leikjum og það er eitthvað sem við þurfum að laga, segir Kolbrún.