Gestir virða kýrnar fyrir sér úr glerskála á Kaffi Kú

„Það var strax mikill áhugi á því að koma hingað í heimsókn og við höfum tekið á móti hópum á liðnum misserum, en nú göngum við skrefið til fulls og opnum formlega veitingaaðstöðu," segir Einar Örn Aðalsteinsson, sem í félagi við föður sinn, Aðalstein Hallgrímsson bónda í Garði í Eyjafjarðarsveit, opnar Kaffi Kú á loftinu ofan við fjósið á bænum.  

Fjósbyggingin er hin stærsta á landinu, um 2.100 fermetrar á stærð og í fjósi eru um 280 gripir. Gestir geta fylgjst með störfum í fjósinu og kynnst um leið með hvernig menn bera sig að við tæknivæddan íslenskan kúabúskap, en tveir mjaltaróbótar eru fyrir hendi, sjálfvirk fóðurgjöf, flórgoði hreinsar flórinn og kálfafóstra sér um að kálfar fái mjólk. 

Kaffi Kú er á lofti ofan við fjósið og í glerskála við veitingastaðinn er hægt að virða kýrnar fyrir sér, inni á staðnum verður komið fyrir sjónvarpsskjá sem sýnir hvað er að gerast í fjósinu, m.a. mjaltir og á svölum er útsýni gott yfir sveitina, bæði til suðurs og norðurs. Einar segir að í vetur verði boðið upp á viðburði á Kaffi Kú, sveitungar ættu t.d. að geta komið þar saman og átt góða stund, yfir fótboltaleik í sjónvarpi eða hlustað á fróðleg erindi sem tengjast landbúnaði.

„Við höfum líka hugsað okkur að vera með móttöku fyrir hópa, það er mikið um ferðir af ýmsu tagi, óvissuferðir, árshátíðarferðir og fleira slíkt og teljum að þetta sé hentugur áfangastaður í ferðum af því tagi," segir Einar. Á Kaffi Kú verður boðið upp á veitingar, m.a. bakkelsi frá Sauðárkróksbakaríi, hefðbundna drykki, eins og kaffi og kakó, auk þess sem vínveitingaleyfi er á staðnum, en eins og vera ber á veitingastað með þessu nafni verða heimalagaðir mjólkurdrykkir í boði.

Nýjast