Gervigrasið í Boganum á Akureyri sótthreinsað
Fjölnotahúsið Boginn á Akureyri er lokaður í dag og á morgun en þessa stundina er Sigfús Ólafur Helgason formaður og framkvæmdstjóri Þórs að sótthreinsa gervigrasið á knattspyrnuvellinum í húsinu með sterku eiturefni. Nokkuð hefur borið á því að knattspyrnufólk hafi fengið sýkingar í opin sár, vegna óhreininda í gervigrasinu. Sigfús segir það allt of algengt að íþróttafólk hræki eða snýti sér í völlinn og að það sé helsta ástæðan fyrir óþrifnaðinum.
Við notum sterkt efni við hreinsunina, það er búið að gera prufur á þessu, þetta á að virka og vonandi verður Boginn hreinn og fínn á eftir. Við höfum ekki verið að sinna húsinu nægilega vel og það er að koma í bakið á okkur. Notendur hafa verið að fá sýkingar í opin sár, við fengum heilbrigðiseftirlitið í lið með okkur og þá kom í ljós að hér voru margir sem áttu ekkert að vera hérna og við erum að reka þá út.
Sigfús segir nauðsynlegt að koma í veg fyrir að menn séu að hrækja og snýta sér í völlinn og hann vill að KSÍ komi þar einnig að málum. KSÍ verður að íhuga það að setja sérákvæði í knattspyrnulögin um knattspyrnuleiki innanhúss. Það verður hreinlega að beita viðurlögum ef menn verða uppvísir af því að hrækja í knattspyrnuleikjum innanhúss. Í handbolta eru menn reknir útaf í tvær mínútur ef þeir brjóta af sér og ég gæti séð eitthvað svipað fyrir mér í fótboltanum, þ.e. að menn sem verða uppvísir af því að hrækja verði reknir útaf t.d. í 5 mínútur í leik. En ef menn gera það ítrekað í hverjum leik, þá fái þeir rauða spjaldið. Handbolta- og körfuboltamenn hrækja ekki á gólfið í íþróttahúsunum og ég skil ekki þessa lensku hjá fótboltamönnun.
Sigfús segir að efnið sem notað er við að sótthreinsa sé blandað miklu magni af vatni og því fari mikill vökvi ofan í gervigrasið. Af þeim sökum þarf að hafa Bogann lokaðan í dag og á morgun. Við opnum svo Bogann hreinan og fínan á laugardagsmorgun.