Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra, segist ekki trúa því að líkur á því að ráðist verði í gerð Vaðlaheiðarganga hafi minnkað. Hann ræddi þetta mál í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Þetta er þrátt fyrir allt gríðarlega mikilvæg framkvæmd, þetta er góð framkvæmd þjóðhagslega, umhverfislega, hvað varðar umferðaröryggi og marga fleiri þætti í byggða- og atvinnulegu tilliti, hún mun standa undir sér og borga sig sjálf. Óvissan er um það hversu hratt verður hægt að greiða lánin til baka og það er búið að reyna að greina það fram og til baka.
Steingrímur sagði að hér væri um ræða gríðarlega varanlega fjárfestingu í samgöngukerfinu. Þetta er svipað og með vatnsaflsvirkjun, eigum við krefjast þess að hún afskrifi sig á 25-40 árum, ef við vitum samt að hún mala í mörg hundruð ár og gera samfélaginu gagn miklu lengur. Þannig er þetta oft með samgönguframkvæmdirnar.
Steingrímur sagði að allur þjóðhagslegur og samfélagslegur ávinningur af gerð Vaðlaheiðarganga væri ekki tekinn með í reikninginn. Menn væru frekar að takast um reikningsdæmið sjálft og þá hvort þetta standi algjörlega undir sér innan tiltekinna tímamarka, að það þurfi að styrkja verkefnið með auknu eigin fé, eða sætta sig við eitthvað lengri endurgreiðslutíma lána. Það er mjög mikilvægt í umræðunni um þetta mál að menn geri ekki þau mistök að halda að óvissan snúist um allt eða ekkert. Annað hvort standi þetta 100% undir sér eða fari algjörlega á hausinn. Þetta er ekki þannig, það er verið að meta líkurnar á því hvort á einhverju tímabili að tekjustreymið frá veggjöldum dugi ekki alveg að fullu til að greiðan lánin niður á sama hraða og menn ætla sér. Hvort einhver hliðrun þyrfti þá að koma til eða einhver styrking á eigin fé. Áhættan er mjög afmörkuð í þessum skilningi. Göngin munu alltaf, miðað við þessar forsendar sem við sjáum, standa að lang mestu leyti undir afborgunum, innan þessara tilsetttu tímamarka en það er erfitt að fullyrða fyrirfram að þau geri það alveg. Það getur orðið eitthvert árabil það sem vantar örlítið upp á að tekjustreymið dugi, miðað við tiltekinn endurgreiðsluferil lánanna. Það er ekki þannig að þetta séu annað hvort 9 milljarðar sem borgist 100% á 25-40 árum eða ekkert. Það má ekki tala um þetta með þeim hætti.
Steingrímur sagði að málið hefði verið skoðað fram og aftur en vissulega sé áhætta í þessari framkvæmd eins og mörgum öðrum. Hann nefndi þá óvissu og áhættu sem fylgdi því að klára tónlistarhúsið Hörpuna í Reykjavík. Það hafi þó verið gert, áætlanir hafi gengið eftir og nú gangi reksturinn vel. Steingrímur sagði að ef menn hefðu með námkvæmlega sömu rökun þá, getað tínt til endalausa áhættuþætti og óvissu og sagt að ekki væri hægt að ráðast í verkefnið. Ef menn nálguðust þetta með svona gagnrýnu hugarfari eins og sumir gera með Vaðlaheiðargöng, þá sýnist mér að lítið yrði um opinberar framkvæmdir á Íslandi. Þetta er líka spurning um að sanngjarni í slíku.
Steingrímur sagði að baráttan fyrir Vaðlaheiðargöngum ætti sér meira en áratuga forsögu. Það er búið vinna mjög lengi að þessu, þetta er gríðarlega stórt atvinnu-, umhverfis- og byggðamál í heilum landshluta. Alþingi hefur margoft komið að þessu máli, sett lög, veitt heimildir á hverju stigi um sig, þannig að menn hafa verið í góðri trú. Ég lít því svo á að sönnunrbyrðin hvíli á þeim sem ætla allt í einu núna, þegar við erum komin með tilboð í verkefnið vel undir kostnaðaráætlun, að segja nei, nei, nú hættum við við, þetta er allt í plati. Þá er búið að hafa menn að fíflum hér árum saman, sem hafa í góðri trú undirbúið þetta verkefni og fengið hvert skref fyrir sig samþykkt á Alþingi, sagði Steingrímur á Sprengisandi í morgun.