Gengu berseksgang í fíflalátum

Fimm piltar á aldrinum 16-17 ára á Akureyri hafa verið kærðir fyrir íkveikju og fyrir valda skemmdum með heimatilbúnni sprengju og flugeldum í síðustu viku. Piltarnir kveiktu í sinu í hestuhúsahverfinu við Kjarnarveg og þurfti að kalla út slökkviliðið til að ráða niðurlögum eldsins. Þá sprengdu þeir upp póstkassa með heimatilbúnni sprengju, hentu kínverjaflugeldum inn um bréfalúgu í heimahúsi og létu kínverjabelti ofan í tvær ruslatunnur.

Gunnar Jóhannsson, lögreglufulltrúi á Akureyri, segir að litlu mátti muna að illa færi. „Við lítum þetta mjög alvarlegum augum. Það hefði getað orðið stórbruni í hestahúsahverfinu en það var heppni að blautt var í veðri. Eldurinn náði ekki að teygja sig í nærliggjandi hlöðu en það var tæpt.“

Þátttaka piltana var mismikil að sögn Gunnars en þrír þeirra stóðu fyrir mesta tjóninu. "Þeir virðast bara hafa gengið berseksgang í fíflalátum.“

Piltarnir játuðu allir verknaðinn hjá lögreglunni á Akureyri í gær og mega búast við skaðabótakröfu fyrir uppátækið.

throstur@vikudagur.is   

Nýjast