Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar fór fram í gærkvöld og var mæting góð. Góðar umræður urðu um málefni sjómanna. Gagnrýni kom fram á forystu samtaka sjómanna og ASÍ og lífeyrismál sjómanna. Samþykkt var að álykta um kjaramál og öryggisfræðslumál sjómanna og voru þær samþykktar samhljóða. Þar er meðal annars krafist breytinga á Slysavarnaskóla sjómanna, gengið verði frá kjarasamningum strax auk þess sem samið verði fyrir sjómenn á hvalaskoðunarbátum.
Þá er þeim tilmælum beint til stjórnar Framsýnar að semja við Landhelgisgæsluna enda vilji háseta innan gæslunnar að vera í Framsýn sem er eitt öflugasta stéttarfélag landsins. Fundarmenn töldu einnig mikilvægt að gengið yrði frá nýju fiskveiðifrumvarpi sem byggi á tillögum vinnuhóps ráðherra sjávarútvegsmála um breytingar á núverandi kerfi, segir í fréttatilkynningu.
Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar samhljóða á fundinum um kjara- og öryggisfræðslumál sjómanna.
Ályktun
- Gengið verði frá sérkjarasamningi fyrir starfsmenn við hvalaskoðun -
Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar beinir þeim tilmælum til stjórnar deildarinnar og fyrirtækja í hvalaskoðun frá Húsavík að þegar í stað verði gengið frá sérkjarasamningi um kaup og kjör sjómanna á hvalaskoðunarbátum. Markmiðið verði að nýr sérkjarasamningur liggi fyrir áður en hvalaskoðun hefst aftur á vormánuðum 2012. Hvalaskoðun frá Húsavík hefur verið vaxandi atvinnugrein á undanförnum árum og ekkert bendir til annars en að svo verði áfram. Það er hins vegar ólíðandi með öllu að ekki hafi verið gengið frá samningi um kaup og kjör sjómanna um borð í þeim bátum sem gerðir eru út á hvalaskoðun.
Ályktun
- Um kjarasamninga sjómanna -
Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar skorar á samtök sjómanna og Landssamband íslenskra útvegsmanna að ganga nú þegar frá kjarasamningi fyrir sjómenn en samningar sjómanna hafa verið lausir, svo mánuðum skiptir. Við endurskoðun kjarasamninganna verði tekið fullt tillit til þeirra skattkerfisbreytinga er miða að því að fella sjómannaafsláttinn niður í áföngum á þriggja ára tímabili. Útgerðinni verði gert skylt að bæta sjómönnum upp skerðingu sjómannaafsláttar skv. skattalögum.
Þá telur fundurinn mikilvægt að friður skapist um fiskveiðistjórnunarkerfið. Í því sambandi er afar brýnt að Alþingi afgreiði sem fyrst frumvarp til laga um stjórn fiskveiða sem er til umfjöllunar í þinginu. Leiðin til þess er að nota nýlegar tillögur starfshóps landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra sem vegvísi að nýjum lögum svo sátt náist meðal þjóðarinnar um stjórn fiskveiða við Íslandsstrendur.
Ályktun
- Um öryggismál sjómanna -
Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar telur afar mikilvægt að Slysavarnarskóla sjómanna verði tryggt nægjanlegt fjármagn til rekstrar með það að markmiði að hægt verði að bjóða sjómönnum upp á lögbundin námskeið utan Reykjavíkur. Skólaskipið Sæbjörg hefur verið bundið við bryggju í Reykjavík frá árinu 2008 og því ekki farið milli helstu útgerðarhafna landsins eins og kveðið er á um í 2. grein laga um Slysavarnarskóla sjómanna.
2. gr. Slysavarnaskóli sjómanna skal halda námskeið fyrir starfandi og verðandi sjómenn um öryggis- og björgunarmál á helstu útgerðarstöðum landsins og annast öryggis- og slysavarnafræðslu fyrir nemendur í skipstjórnar- og vélstjórnarnámi.
Aðalfundurinn hvetur jafnframt til þess að umræða fari fram meðal hagsmunaaðila um framtíðarskipulag öryggisfræðslunámskeiða sjómanna. Það er hvort ekki sé rétt að endurskoða núverandi fyrirkomulag með það að markmiði að færa lögbundna kennslu og endurmenntun í auknum mæli heim í byggðalögin í stað þess að beina öllum sjómönnum til Reykjavíkur á námskeið í Sæbjörgu.