Gengið til samninga við lægstbjóðanda í Dalsbraut

Þingvallastræti -Dalsbraut. Mynd: Hörður Geirsson.
Þingvallastræti -Dalsbraut. Mynd: Hörður Geirsson.

Meirihluti framkvæmdaráðs samþykkti á fundi sínum í morgun að ganga til samninga við G.V. Gröfur ehf. um lagningu Dalsbrautar, frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut en fyrirtækið átti lægsta tilboð í verkið. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 72,7 milljónir króna en G.V. Gröfur buðu 53,8 milljónir, eða 74% af kostnaðaráætlun. Lögð hefur verið fram stjórnsýsluákæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna ákvörðunar Bæjarstjórnar Akureyrarkaupstaðar að samþykkja deiliskipulag fyrir Dalsbraut frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut. Oddur Helgi Halldórsson formaður framkvæmdaráðs vonast til að hægt verði hefja framkvæmdir fljótlega, jafnvel innan mánaðar. Komi fram krafa um stöðvun framkvæmda, vonast Oddur til að úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, liggi fyrir sem allra fyrst.

Ólafur Jónsson D-lista og Sigfús Arnar Karlsson B-lista sátu hjá við afgreiðslu málsins í framkvæmdaráði í morgun. Sigfús lagði auk þess fram svohljóðandi: “Á öllum stigum málsins hefur Framsóknarflokkurinn talið þessa framkvæmd óþarfa að svo komnu máli og fjármunum Akureyrarkaupstaðar betur varið í önnur þarfari verkefni. Þar af leiðandi greiði ég ekki atkvæði um tilboðið.”

 

Nýjast