Geir í fantaformi í Svíþjóð
Handboltakappinn Geir Guðmundsson í liði Akureyrar virðist vera að ná sínu fyrra formi eftir að hafa fengið blóðtappa í hægri hendina sem hélt honum frá keppni meirihluta síðasta tímabils.
Geir er nú staddur með U19 ára landsliðinu á Opna Evrópumótinu sem fram fer í Gautaborg í Svíðþjóð þessa dagana. Hann var markahæstur íslenska liðsins með 7 mörk sem lagði Finna að velli, 28:15, í öðrum leik liðsins á mótinu í gær. Geir var einnig markahæstur ásamt þremur öðrum með 4 mörk er Ísland vann Rússland í fyrsta leiknum.
Einnig eru þeir Guðmundur Hólmar Helgason og Ásgeir Kristinsson, liðsfélagar Geirs hjá Akureyri, í eldlínunni með íslenska liðinu og hefur Guðmundur einnig verið drjúgur í markaskorun.
Ísland er með fullt hús stiga eftir tvo leiki en liðið mætir Hollandi í dag og Belgíu á miðvikudaginn. Tvö efstu liðin í riðlinum komast áfram í milliriðil.