„Gefandi að fá að leika við annað fólk sem hefur áhuga á því sama og maður sjálfur“

„Þetta ár! Jesúsminn. Ekki alveg venjulegt. Hvað ætli gerist eiginlega næst?“ Sissa Líf.
Myndir: Si…
„Þetta ár! Jesúsminn. Ekki alveg venjulegt. Hvað ætli gerist eiginlega næst?“ Sissa Líf. Myndir: Sindri Swan.

Norðlenski atvinnuleikhópurinn Umskiptingar sýna Leikverkið Líf eftir Margréti Sverrisdóttur í Samkomuhúsinu á Akureyri í kvöld. Sýningin er hluti af einleikjaröð sem Leikfélag Akureyrar stendur fyrir.

Líf fjallar um Sissu Líf, sem er tónlistarkona af lífi og sál. Hún hefur óbilandi trú á eigin ágæti en finnst hún ekki alltaf njóta sannmælis í listaheiminum, þar sem klíkuskapurinn ræður ríkjum. Eftir eins sumars frægð á unglingsárunum og vinsælan einsmellung dreymir hana um meira. Svo miklu meira. En lífið þvælist fyrir henni og áframhaldandi frægð lætur bíða lengi eftir sér. En Sissa gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana og loksins, einn góðan veðurdag, springur allt út.

 Frábærar viðtökur

Margrét sem leikur Sissu Líf var full tilhlökkunar þegar blaðamaður Vikublaðsins  ræddi við hana í vikunni og sagði að móttökurnar við einleiknum hafi verið vonum framar, en verkið hefur verið sýnt í sumar í Iðnó í Reykjavík og á Reykjavík Fringe hátíðinni, en þar fékk Margrét verðlaun fyrir bestu persónusköpun.

„Ég átti ekki von á svona ofsalegum viðtökum á Reykjavík Fringe í sumar það var mjög gaman,“ segir Margrét og bætir við að verkið ætti klárlega að vera fyrir „ykkur“ Húsvíkinga en því er greinilega beint að blaðamanninum frá Húsavík.

Líf

„Sissa Líf hefur lifað skrautlegu lífi síðan hún var lítil stelpa á Húsavík, en hún er Húsvíkingur í húð og kyn,“ segir Margrét. „Hún ákvað snemma að verða tónlistarkona og sló ung í gegn ásamt vinkonu sinni með lagið Hurry Boy, eitt vinsælasta lag seinni tíma. En þótt lífið hafi lagt margar gildrur fyrir hana þá lætur hún það ekki stöðva sig því hún elskar að spila fyrir fólk.⁠“

Margrét hikar þegar hún er spurð hvort Sissa Líf sé byggð á henni sjálfri. Hún segist ekki alveg vera tilbúin að kvitta undir það. „Nei, en mörgu öðru áhugaverðu,“ segir hún dularfull. „Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja. Það er auðvitað margt í þessu sem kemur úr mínu umhverfi. Rosalega mikið af molum úr mörgu fólki sem hefur orðið á vegi mínum. Verkið verður til vegna þess að ég fékk svo mikinn áhuga á listamönnum sem eru ekki allra. Listamönnum sem fólk er ekkert sammála um hvort manneskjan sé listamaður eða ekki en viðkomandi nær samt alltaf einhvern vegin að lifa af þessu. Halda sig við það sem hana langar til að gera,“ útskýrir Margrét

Þroskaðist í heimsfaraldri

Margrét sem er hluti af leikhópnum Umskiptingar skrifaði verkið fyrir ríflega ári síðan sem hluta af tvíleik ‚Umskiptinga. „Við vorum að sækja um styrki og við ákváðum að sækja um sameiginlega styrki fyrir tveimur einleikjum. Þá var ég komin með eitthvað fræ af þessu í huga. Ég ætlaði aldrei að vera með eitthvað langa sýningu. Okkur fannst upplagt að við myndum verða með svona einleik fyrir og eftir hlé. Tvær sögur af konum. Svo stóð alltaf til að fara sýna þetta og við vorum að fara af stað með sýningar en þá kom Covid. Þessu var þá bara pakkað niður í marga mánuði. Sem að varð svo bara blessun að lokum því verkið kom bara skýrara undan þessu öllu saman en það hafði verið áður. Það varð til bóta að fá að melta þetta aðeins,“ segir Margrét.

 Eintakt tækifæri

 

Það er um að gera að láta þetta tækifæri ekki framhjá sér fara í kvöld því það er aðeins um þessa einu sýningu að ræða. „Þetta er hluti af einleikja röð sem Lekfélag Akureyrar stendur fyrir. Við erum svo með aðra sýningu sem er sér fyrir skóla en hún telst ekki með í þessari einleikjaröð,“ segir hún.  

Aðspurð um það hvort uppselt sé á sýninguna viðurkennir Margrét að hún hafi ekki hugmynd um það og skellir upp úr. „Ég hef bara ekkert mátt vera að því að hugsa um það. Hún er líka þannig týpa hún Sissa Líf,- ég hef alveg leikið fyrir þrjá t.d. Það er einhvern vegin eðlilegt fyrir svona týpu eins og hana Sissu Líf. Þannig að ég veit bara ekkert hvað er búð að selja af miðum.“

Umskiptingar

Árið 2017, þegar leikhópurinn Umskiptingar var stofnaður markaði það tímamót. Það var í fyrsta skipti í 4 ár sem atvinnuleikhópur var starfandi á Akureyri.

Við Margrét þurfum að staldra við og hugsa okkur um hvað leikhópurinn er búinna að vera starfandi lengi, enda flýgur tíminn.  „Við vorum báðar óléttar ég og Jenný  þegar við stofnuðum þetta og börnin okkar eru fimm ára í dag,“ segir Margrét létt í bragð og viðurkennir að það kosti blóð svita og tár að halda úti atvinnuleikhópi á landsbyggðinni.

„Þetta er náttúrlega djöfulsins hark en þetta er gaman. Svo gefandi að fá að leika við annað fólk sem hefur áhuga á því sama og maður sjálfur og þurfa ekki að búa í Reykjavík til þess. Enda eru allar boðleiðir miklu styttri hérna, og auðveldara að gera hluti, oft fyrir lítinn pening,“ útskýrir Margrét og bætir við að þau séu hvergi nærri hætt.

„Við Umskiptingar erum að fara sækja um styrki til að gera meira. Við erum að skrifa leikrit og vonumst til að fá einhverja styrki til að gera eitthvað við þetta.

Atvinnuleikhópinn Umskiptinga skipa þau Jenný Lára Arnórsdóttir, Margrét Sverrisdóttir, Sesselía Ólafsdóttir, Sindri Swan, Birna Pétursdóttir, Vilhjálmur B. Bragason, Rósa Ásgeirsdóttir, Arnþór Þórsteinsson og Jónína Björt Gunnarsdóttir.

Fyrsta verk leikhópsins hét „Framhjá rauða húsinu og niður stigann“. Það vakti mikla eftirtekt og fékk góða dóma og var sýnt bæði í Hlöðunni, rétt utan Akureyrar, og í Tjarnarbíói og árið eftir var leikhópurinn tilnefndur til Grímunnar sem sproti ársins.

Síðastliðið haust sýndu þau svo tvíleikinn “Í myrkri eru allir kettir gráir” sem innihélt einleikina Líf og Heimþrá (eftir Sesselíu).

Nú gefst Norðlendingum einstakt tækifæri til að sjá þetta magnaða verk Líf í samkomuhúsinu á Akureyri.

Höfundur: Margrét Sverrisdóttir

Leikari: Margrét Sverrisdóttir

Leikstjóri: Jenný Lára Arnórsdóttir

Aðstoðarmaður leikstjóra: Sindri Swan

Tónlist: Eggert Hilmarsson

Leikstjóri er Jenný Lára Arnórsdóttir en með hlutverk Sissu Líf fer Margrét Sverrisdóttur.


Athugasemdir

Nýjast