11.desember - 18.desember - Tbl 50
Geðverndarfélag Akureyrar fagnar 50 ára afmæli
„Geðverndarfélag Akureyrar hefur ekki verið mjög áberandi undanfarin ár, en á sér engu að síður merka sögu og hefur staðið fyrir mikilvægum framförum í geðheilbrigðismálum í bænum og ýmislegt sem til bóta er í þessum viðkvæma málaflokki,“ segir Valdís Eyja Pálsdóttir formaður Geðverndarfélags Akureyrar. Félagið var stofnað 15. desember árið 1974 og verður því 50 ára gamalt innan tíðar. Haldið verður upp á tímamótin næstkomandi laugardag.
Valdís segir að rekja megi stofnun Geðverndarfélags Akureyrar, GVA, til þess að fyrsti geðlæknirinn kom til starfa á Akureyri, sá var ráðinn til starfa við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, sem hét svo í þá daga. „Hann átti þátt í að stofna félagið ásamt fleira fagfólki sem og aðstandendum fólks með geðrænan vanda og má segja að horft hafi verið til Geðverndarfélags Íslands sem fyrirmyndar.“
Áfangaheimili, Lautin og Grófin
Hún nefnir að Geðverndarfélag Akureyrar hafi árið 1989 tekið þátt í stofnun áfangaheimilis fyrir fólk með alvarlegar geðraskanir og var það gert í samvinnu við Svæðisstjórn um málefni fatlaðra á Norðurlandi eystra. Þá hafi GVA einnig tekið þátt í stofnun Lautarinnar árið 2000 í samvinnu við Rauða krossinn og Akureyrarbæ en þangað leitar fólk sem glímir við geðraskanir og er er markmið starfseminnar að rjúfa félagslega einangrun og gefa fólki færi á að taka þátt í margs konar uppbyggilegu virkni starfi. Síðast en ekki síst stóð GVA fyrir stofnun Grófarinnar geðræktar árið 2013 og stóð fyrir rekstrinum fyrstu árin. „Grófin hefur reynst fólki sem glímir við geðraskanir mikilvæg, líkt og með Lautina á starfsemin þar sinn þátt í að rjúfa félagslega einangrun og taka þátt í virknistarfi. Áherslan hjá Grófinni er að auki lögð á hugmyndafræði sem ýtir undir valdeflingu og batavinnu í jafningjaumhverfi. Bæði Lautin og Grófin hafa sannað gildi sitt sem mikilvæg úrræði fyrir fólk sem glímir við geðraskanir til að viðhalda eða bæta sína geðheilsu,“ segir Valdís.
Valdís Eyja Pálsdóttir formaður Geðverndarfélags Akureyrar
Á krossgötum
Geðverndarfélag Akureyrar stendur á krossgötum um þessar mundir að sögn formannsins. Núverandi stjórn þess vill efla félagið, fjölga félagsmönnum og halda áfram að styðja við framfarir í geðheilbrigðismálum á svæðinu. Bendir Valdís á að geðheilbrigðisþjónusta á landsvísu sé fjársvelt líkt og landssamtökin Geðhjálp hafa ítrekað bent á. Umfang geðheilbrigðisþjónustu er um 25% af allri heilbrigðisþjónustu en fjármagnið til málaflokksins nemur um 5%. „Það má færa rök fyrir því að staðan sé jafnvel enn verri á Akureyri þar sem í boði er mun minni sérhæfð þjónusta en á höfuðborgarsvæðinu. Með þessar staðreyndir í huga viljum við hjá Geðverndarfélaginu vinna að því félagsmönnum fjölgi umtalsvert og þannig verði til öflugra félag sem standi undir fjölbreyttara starfi. Að við getum stutt við bakið á allri flórunni þegar kemur að geðheilbrigðismálum á svæðinu, bæði þeim verkefnum sem við þegar sinnum og eins að bæta við nýjum verkefnum,“ segir hún.
Draumur um öflugt félag
Valdís segir að í lögum félagsins sé gert ráð fyrir að það láti sig varða hin fjölbreyttustu verkefni, forvarnir, fræðslu, málefni barna og ungmenna, fullorðinna, fólks með fíknivanda sem og hin ýmsu meðferðarúrræði. „Kröftugt Geðverndarfélag gæti veitt mikilvæga styrki þangað sem þeirra er þörf og miða að því að bæta geðheilbrigðisþjónustu, hvort heldur sú þjónusta á heima í heilbrigðis- skóla- eða félagslega kerfinu, hjá félagssamtökum eða snýr að endurhæfingu. Ef GVA gæti náð að skapa sér álíka sess og hið rómaða Hollvinafélag SAk í hugum og hjörtum fólks, mætt sjá fyrir sér að unnt yrði að styðja myndarlega við mikilvæg framfaraskerf í geðheilbrigðisþjónustu hér um slóðir,“ segir Valdís og nefnir að Geðverndarfélag Akureyrar sé þegar komið á almannaheillaskrá sem vonandi verði fólki og fyrirtækjum hvatning til að styrkja félagið fjárhagslega og fá í staðinn skattaafslátt lögum samkvæmt.