Umferð um Lækjargötu á Akureyri hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Þrátt fyrir það er efsti hluti hennar ennþá malarvegur. Inga Vala Birgisdóttir býr við Lækjargötu og hefur gert meira og minna síðar árið 1971. Hún segir umferðina hafa stóraukist og löngu sé orðið tímabært að malbika eða lagfæra götuna með einhverjum hætti.
„Hér áður fyrr þekkti maður bílana sem keyrðu hérna framhjá en núna geta bílar varla stoppað við húsið því þá eru strax komnir tveir til þrír fyrir
aftan. Akstur hér framhjá er orðinn það mikill,“ segir Inga Vala. Hin vinsæla ísbúð Brynja er í grenndinni og fara margir um Lækjargötuna þegar á að gæða sér á ís. „Í öðrum hverjum bíl sem fer hér um sér maður fólk með ís í hendi,“ segir Inga Vala.
Hún segir íbúa við götuna hafa margoft rætt við bæjaryfirvöld um að klára að malbika en hins vegar sé fátt um svör. „Bærinn veit ekkert hvað hann ætlar að gera með þetta en ástandið er ömurlegt. Svifrykið er t.d. langt yfir öllum mörkum á þurrum sumardögum og ef ég hringi ekki eftir bíl til að láta bleyta götuna þá gerist ekki neitt,“ segir Inga Vala og bætir við: „Gatan er líka oft eins og kappakstursbraut. Ungum ökumönnum finnst æðislegt að spyrna hér upp og lenda á ómalbikuðum vegi.“
Hún segir einnig að varla sé hægt að ganga meðfram götunni því engar séu gangstéttarnar. „Þetta er ekki boðlegt lengur og í raun hættulegt ástand.“ Inga Vala bendir jafnframt á að þegar Spítalavegur var gerður að einstefnugötu fyrir nokkrum árum og Naustahverfið kom til sögunnar hafi umferð aukist verulega. „Það er með ólíkindum að bærinn hafi ekki gert ráð fyrir öllum leiðum eins og þessari götu.“
Hún segir jafnframt að verði gatan malbikuð þurfi að draga úr hraðanum um hana með einhverjum hætti. „Það er ekki ólíklegt að umferðin muni
aukast enn frekar verði gatan klárið og þá þarf að mæta því,“ segir Inga Vala.