Gamla Linda Steikhús býður auðvitað Lindubuff!
Það er Veisluþjónustan ehf sem á og mun reka þennan nýjasta veitingastað í bænum, en á bak við það félag standa Júlía Skarphéðinsdóttir kokkur, og Erlingur Örn Óðinsson þjónn. Þau hafa rekið fyrirtækið til fjölda ára og eru gjörkunnug í bransanum. Júlía segir að á veitingastaðnum verði rými fyrir um það bil 70 gesti í sætum, en að auki munu þau hafa yfir að ráða tveimur sölum á annarri hæð hússins, þar sem Tónlistaskólinn á Akureyri var áður með sína starfsemi. Annar þeirra tekur 30 til 40 manns í sæti og hinn allt að 120 manns. Salirnir verða leigðir út til veisluhalda af ýmsu tagi, til funda og ráðstefna, en eins er fyrirhugað að vera með jólahlaðborð þar þegar tími þeirra rennur upp.
„Við munum leggja áherslu á norðlensk matvæli, en matseðillinn er í vinnslu þessa dagana ásamt ýmsu öðru sem gera þarf áður en opnað er," segir hún en getur þess að þegar sé komið nafn á einni af glæsilegri steikunum sem í boði verður, „við verðum að sjálfsögðu með Lindubuff," segir hún. Júlía segir að vissulega sé mikil samkeppni á markaðnum á Akureyri og fyrir sé fjöldi veitingahúsa, en það sé af hinum góða og fólk vilji ávallt hafa val. „Það er gaman að því hversu duglegt fólk er að lyfta sér upp, Akureyringar fara í auknum mæli út að borða og í bænum er ævinlega mikill fjöldi ferðamanna, þannig við erum bara bjartsýn á að þetta muni ganga vel," segir Júlía.