Gamla Hótel Akureyri tekur á sig nýja mynd

Hafnarstræti 98, sem í daglegu tali er nefnt Gamla Hótel Akureyri, tók á sig nýja og skemmtilega mynd í dag en þá voru gluggar hússins myndskreyttir með gömlum Akureyrarmyndum og er tilgangurinn að bæta ásýnd hússins og fegra götumyndina.  

Hlutafélagið H98 ehf. sem er í eigu KEA og Saga Capital,  keypti húsið í mars árið 2008 en framkvæmdir við það eru í biðstöðu vegna aðstæðna á markaði og óvíst er hvenær hafist verður handa að nýju.  Myndirnar sem skreyta húsið sýna m.a. Sundlaug Akureyrar um miðjan 4. áratug 20. aldar, skíðaferð á fyrsta áratug 20. aldar, Ráðhústorg upp úr 1940, þegar rútan var nýkomin í bæinn og síðast en ekki síst myndin sem sýnir garðveislu á góðviðrisdegi hjá góðborgurunum Oddi og Ölmu Thorarensen. Myndin var tekin á fyrsta áratug 20. aldar og skrýðir hún m.a. sýningu Minjasafnsins "Akureyri, bærinn við Pollinn".
Þetta er samstarfsverkefni  Stíls, KEA, Akureyrarstofu, Saga Capital, Markaðsskrifstofu Norðurlands og Minjasafnsins á Akureyri. Dugnaðarforkar frá Fjölsmiðjunni voru fengnir til að hreinsa gluggana og gera þá klára, Stíll sá um alla vinnu við hönnun, frágang og að koma myndunum á sinn stað en þær koma úr stóru myndasafni Minjasafnsins á Akureyri sem geymir marga gamla gullmola.

Nýjast