Gamla fréttin: Lágt hlutfall kvenna í útvarpsfréttum gagnrýnt af konum á Alþingi

Kristín Ásgeirsdóttir þáverandi þingkona Kvennalistans vakti máls á því árið 1996 að í gildi væru ja…
Kristín Ásgeirsdóttir þáverandi þingkona Kvennalistans vakti máls á því árið 1996 að í gildi væru jafnréttislög og fyrri ríkisstjórn hefði samþykkt sérstaka jafnréttisáætlun.

Gamla fréttin að þessu sinni er úr Morgunblaðinu frá 29. maí 1996. Fréttin segir frá umræðu á Alþingi um lágt hlutfall kvenna í fréttum og umræðuþáttum í Ríkisútvarpinu, en kynjakvóti í fjölmiðlum hefur verið talsvert í umræðunni undanfarið 1-2 ár. / epe.

MENNTAMÁLARÁÐHERRA var gagnrýndur fyrir það af konum á Alþingi í gær, að vilja ekki beita sér fyrir því að hlutur kvenna í fréttum og umræðuþáttum í Ríkisútvarpinu verði aukinn en ráðherra telur að slíkt væri íhlutun í innri mál stofnunarinnar.

Í fyrirspurnartíma á Alþingi spurði Siv Friðleifsdóttir Framsóknarflokki Björn Bjarnason menntamálaráðherra hvort hann hefði í hyggju að hvetja Ríkisútvarpið til að auka hlut kvenna í fréttum og umræðuþáttum. Vitnaði Siv m.a. til upplýsinga um rýran hlut kvenna í fréttum, svo sem að konur væru aðeins 18% viðmælenda fréttamanna Ríkissjónvarpsins.

Björn sagðist ekki myndu beita sér sérstaklega í þessu máli, sem varðaði innra starf í Ríkisútvarpinu og lyti að sjálfstæði þess. Ríkisútvarpinu bæri sjálfu að gæta þess að jafnrétti væri í heiðri haft innan stofnunarinnar.

 „Svekkjandi svar"

Töluverð umræða varð um þetta svar Björns og gagnrýndu nokkrar konur í hópi þingmanna afstöðu Björns. Siv sagði að svar Björns hefði verið afar svekkjandi og rislítið. Ríkisútvarpið hefði ekki jafnrétti í heiðri og skilaboð ráðherrans væru einfaldlega þau að það ætti að drolla áfram í sömu förum. Siv sagði greinilega afar langt í land í jafnréttismálum þegar svona svör fengjust.

Arnþrúður Karlsdóttir Framsóknarflokki hvatti menntamálaráðherra til að leita leiða, sem mættu verða til að fjölga konum í hópi þátttakenda í fréttatímum og öðrum dagskrárliðum Ríkisútvarpsins. Með slíku væri hann ekki að skipta sér af innra starfi stofnunarinnar heldur að vinna sitt verk.

Kristín Ásgeirsdóttir Kvennalista sagðist hafa staðið í þeirri meiningu að það væri hlutverk menntamálaráðherra að sjá um að lögum væri framfylgt, ekki síst í stofnunum sem heyrðu undir hann en í gildi væru jafnréttislög og fyrri ríkisstjórn hefði samþykkt sérstaka jafnréttisáætlun.

Rannveig Guðmundsdóttir Alþýðuflokki að mikið ójafnrétti væri í umfjöllun fjölmiðla um þingmál. Konur væru 25% þingmanna en það væri mat þeirra allra að umfjöllun um málefni sem þær stæðu fyrir, væri minni en sem þessu hlutfalli næmi.

Út fyrir verksvið

Björn sagði fyrirspurnina hafa snúist um hlut kvenna í fréttum og umræðuþáttum. Og ef menntamálaráðherra ætti að fara að gefa Ríkisútvarpinu fyrirmæli um að auka bæri hlut kvenna í fréttum og umræðuþáttum þá væri hann kominn langt út fyrir verksvið sitt. Björn sagði að ljóst væri af skýrslum, að hlutur kvenna mætti vafalaust vera betri ef fullt jafnrétti ætti að gilda, en erfitt væri að beita jafnréttisreglu þegar um væri að ræða fréttir og umræðuþætti. Björn sagðist sjálfur hafa verið blaðamaður í 12 ár, og ef hann hefði átt að ákveða og skrifa fréttir með hliðsjón af því hvort karl eða kona ætti í hlut, hefði hann lent í miklum vandræðum.

Björn sagði að ekki væri hægt að setja í jafnréttislög ákvæði um að skrifa bæri fréttir á grundvelli þeirra. Ríkisútvarpinu bæri að fara að jafnréttislögum ella gætu ráðherra og Alþingi tekið í taumana en fyrirspurn Sivjar hefði ekki snúist um það.

Nýjast