Gamla fréttin: Hvalaskoðun vinsæl á heimsvísu

FRANK Wirht og Ralf Kiefner í hvalaskoðun á bátnum Knerri, Húsavík.
/skjáskot af tímarit.is
FRANK Wirht og Ralf Kiefner í hvalaskoðun á bátnum Knerri, Húsavík. /skjáskot af tímarit.is

Gamla fréttin að þessu sinni er úr Morgunblaðinu og birtist fimmtudaginn 20. júní 1996. Fréttin segir frá tveimur Þjóðverjum, blaðamanni og ferðaskrifstofueiganda sem komu til Húsavíkur og fóru í Hvalaskoðun í árdaga þeirrar greinar á Íslandi. Þeir spá því að greinin geti dafnað vel. /epe

„HVALASKOÐUN getur orðið íslandi meira virði í peningum en hvalveiðar," segir Ralf Kiefner, sem er þýskur blaðamaður og ljósmyndari, en hann hefur verið með nokkrum Þjóðverjum að kanna aðstæður á Íslandi til hvalaskoðunar.

Kiefner hefur sérhæft sig í ljósmyndum dýra og ferðast af því tilefni víða um heiminn, einkum hefur hann myndað og skrifað um hvali. Hann segir að 4,6 milljónir manna hafi farið í hvalaskoðun árið 1994 í heiminum, og hefur hann sjálfur heimsótt staði sem undanfarin ár hafa verið í mikilli uppsveiflu vegna áhuga ferðamanna á að skoða hvali í sjónum.

„Mér líst mjög vel á aðstæður hér til að skoða hvali," segir hann, „þær eru ekki ósvipaðar og á stöðum sem hafa gert það gott í hvalaskoðun."

Hann segir að í Buenos Aires í Argentiu hafi 34 þúsund farið í hvalaskoðun árið 1993, og nefnir staði sem hafa tvöfaldað fjölda ferðamanna í hvalaskoðun á einu til tveimur árum.

Með honum í för var þýskur ferðaskrifstofueigandi, Frank Wirth, sem hefur selt ferðir í hvalaskoðun á fjölmarga staði í heiminum og er nú að skoða aðstæður hér. Eins og Kiefner líst honum mjög vel á ísland sem góðan hvalaskoðunarstað.

Páll Þór Jónsson hótelstjóri á Húsavík hefur aðstoðað þá og segir hvalaskoðun nýjan möguleika í að laða erlenda ferðamenn til landsins, sem ætti að vera raunhæfur. Hann á til dæmis von á tveimur hópum frá Bretlandi sem koma hingað gagngert til að skoða hvali.

Byrjað var að fara í hvalaskoðun frá Húsavík á síðasta ári og keyptu 1.500 sér far til þess. Núna stefnir í miklu hærri tölu.

Nýjast