Gamanleikritið Nei ráðherra, flyst til Akureyrar í marsmánuði eftir yfir 70 uppseldar sýningar í Borgarleikhúsinu. Sýningin var vinsælasta leiksýning landsins á síðasta ári og mun hún snúa aftur á fjalir Borgarleikhússins eftir að hún hefur kætt leikhúsunnendur í Menningarhúsinu Hofi í mars. Nei ráðherra hlaut einróma lof gagnrýnenda og var valin áhorfendasýning ársins þegar Grímuverðlaunin voru afhent á síðasta ári.
Hér er ferðinni drepfyndið verk úr smiðju Ray Cooney í íslenskri heimfærslu Gísla Rúnars Jónssonar. Leikstjórn er í höndum Magnúsar Geirs Þórðarsonar leikhússtjóra Borgarleikhússins en hljómsveitin Baggalútur samdi tónlist verksins. Einvalalið leikara tekur þátt í sýningunni en Guðjón Davíð Karlsson (Gói), Lára Jóhanna Jónsdóttir, Hilmar Guðjónsson og Sigurður Sigurjónsson eru í burðarhlutverkum. Sýningarnar á Akureyri eru samstarfsverkefni Menningarhússins Hofs, Borgarleikhússins og Leikfélags Akureyrar en áskriftarkortagestum LA býðst afsláttur af miðum í fyrstu viku forsölunnar. Takmarkaður sýningarfjöldi er í boði vegna anna leikaranna.