Gæti þurft að loka Sundlauginni í Lundi

Sundlaugin í Lundi. Mynd/ Norðurþing
Sundlaugin í Lundi. Mynd/ Norðurþing

Komin er upp sú staða í Lundi í Öxarfirði að til greina kemur að sundlaugin á staðnum verði ekki opin almenningi í sumar; vegna þess að ekki hefur fengist starfsfólk við laugina. Búið er að auglýsa eftir starfsfólki  í auglýsingamiðlum á svæði Norðurþings og á Eyjafjarðarsvæðinu en enn hefur engin umsókn skilað sér inn til sveitarfélagsins.

Æskulýðs- og menningarnefnd Norðurþings fjallaði um stöðuna á fundi sínum í gær, þriðjudag. Nefndin vísaði málinu til byggðaráðs og leggur til að kannað verði að leigja út rekstur laugarinnar.
„Nefndin er eiginlega komin á endastöð, það fæst ekki starfsfólk og þá nær málið ekki lengra,“ segir Kjartan Páll Þórarinsson, tómstunda- og æskulýðsfulltrúi hjá Norðurþingi en hann er jafnframt ábyrgðarmaður fyrir rekstri Sundlaugarinnar í Lundi. Hann segir að nauðsynlegt sé að fylga lögum og reglugerðum um sundstaði sem eru mjög strangar. Kjartan bendir m.a. á að vegna meðaltalsgestafjölda sundlaugarinnar sé skylda að hafa tvo starfsmenn á vakt hverju sinni. „Þetta er mjög leiðinleg staða sem komin er upp,“ segir Kjartan.

Varðandi hugmyndir um að leigja út reksturinn segir Kjartan að horft hafi verið til þess að það hafi áður verið gert í sveitarfélaginu þegar rekstur Sundlaugarinnar í Heiðarbæ var leigður út. „Það er í sjálfu sér verið að leita allra leiða til að halda sundlauginni opinni,“ segir hann.

Sumaropnun Sundlaugarinnar í Lundi er í raun hafin með skólasundi fyrir börn úr Lundaskóla. Ef allt væri eðlilegt myndi sundlaugin opna fyrir almenning í júní og vera opin út ágúst en það er sem sagt í uppnámi eins og staðan er í dag.

Bókun æskulýðs- og menningarnefndar:

Æskulýðs- og menningarnefnd harmar það að enginn skuli sýna störfum í sundlauginni áhuga.
Miðað við núverandi stöðu er því ekki hægt að hafa sundlaugina opna. 
Æskulýðs- og menningarnefnd vísar málinu til Byggðarráðs og leggur til að kannað verði að leigja út rekstur laugarinnar líkt og fordæmi eru fyrir annarstaðar í sveitarfélaginu. Nefndin telur það mikilvægt að kannaðar verði allar mögulegar leiðir til að tryggja sumaropnun sundlaugarinnar í Lundi.

Nýjast