Gæsarungar skriðu úr eggjum á Andapollinum

Fjórir aligæsarungar skriðu úr eggjum á Andapollinum við Sundlaug Akureryar sl. laugardag og heilsast þeim vel. Magnús Lórenzson fuglaáhugamaður, segir að það sé nokkuð sérstakt að ungar komi úr eggjum á Andapollinum á þessum árstíma. Hann segir að götuljósin í kringum Andapollinn rugli bæði endur og gæsir í rýminu, því þær hafi byrjað að verpa í febrúar. Eggin hafi þó verið tekin undan þeim. Nýju gæsarungarnir eru í kofa innan girðingar og una hag sínum vel, að sögn Magnúsar. Hann segir að tvær aligæsir á Andapollinum hafi týnst á dögunum en að þær hafi  brugðið sér í bæjarferð. “Önnur fór í verslunarferð á Glerártorg en hin í hársnyrtingu á Medullu við Strandgötu og var þar á vappi í einhverja daga,” sagði Magnús. Þær skiluðu sér þó heim að lokum.

Í morgun voru starfsmenn bæjarins að hreinsa tjarnirnar á svæðinu og á meðan biðu endur og gæsir hinar rólegustu upp við girðingu. Gæsamamma sá hins vegar um að halda hita á ungum sínum í kofanum.

Nýjast