Fyrstu sýningar á NEI RÁÐHERRA um næstu helgi

Leikmyndin er komin til Akureyrar og verður unnið að uppsetningu í Hofi næstu daga.
Leikmyndin er komin til Akureyrar og verður unnið að uppsetningu í Hofi næstu daga.

Leikmyndin fyrir Nei ráðherra, áhorfendasýningu ársins er komin norður yfir heiðar og verður því unnið hörðum höndum næstu daga í Hofi við undirbúning og uppsetningu. Fyrsta sýning verður næstkomandi laugardagskvöld, 3. mars. Miðasala á sýninguna hefur gengið afar vel og miðarnir gjörsamlega rjúka út og hefur nú tveimur nýjum sýningum verið bætt við. Sýningarnar á Akureyri eru samstarfsverkefni Menningarhússins Hofs, Borgarleikhússins og Leikfélags Akureyrar. Gamanleikritið Nei ráðherra! flyst til Akureyrar í marsmánuði eftir yfir 70 uppseldar sýningar í Borgarleikhúsinu. Sýningin er vinsælasta leiksýning landsins síðasta árið og mun hún snúa aftur á fjalir Borgarleikhússins eftir að hún hefur kætt leikhúsunnendur í Menningarhúsinu Hofi í mars. Nei ráðherra hlaut einróma lof gagnrýnenda og var valin áhorfendasýning ársins þegar Grímuverðlaunin voru afhent á síðasta ári. Hér er ferðinni drepfyndið verk úr smiðju Ray Cooney í íslenskri heimfærslu Gísla Rúnars Jónssonar. Leikstjórn er í höndum Magnúsar Geirs Þórðarsonar leikhússtjóra Borgarleikhússins en hljómsveitin Baggalútur samdi tónlist verksins. Einvalalið leikara tekur þátt í sýningunni en Guðjón Davíð Karlsson (Gói), Lára Jóhanna Jónsdóttir, Hilmar Guðjónsson og Sigurður Sigurjónsson eru í burðarhlutverkum. Takmarkaður sýningarfjöldi er í boði vegna anna leikaranna.

Sagan. Ýmsum óþrifnaði hefur ráðherrann ungi sópað undir teppi, atvinnulygarinn sjálfur, en þó aldrei dauðum manni – og það á hótelherbergi – með viðhaldinu – sem er innsti koppur í búri stjórnarandstöðunnar. Það stóð ýmislegt til í þessu hótelherbergi en ekki þetta! Hvað gera ráðherrar nú? Þeir hringja auðvitað í strangheiðarlegan og vammlausan aðstoðarmann sinn sem lendir í skítverkunum eins og venjulega. Það þarf að sjá um viðhaldið, fela verksummerki, losna við líkið, bera fé í útsmoginn þjón og síðast en ekki síst að halda öllu leyndu fyrir afbrýðisömum eiginmönnum og -konum.

Uppfærslan. Þessi drepfyndni gamanleikur kemur úr smiðju Ray Cooney konungs gamanleikjanna. Hann er Íslendingum að góðu kunnur en gamanleikirnir Með vífið í lúkunum, Tveir tvöfaldir og Viltu finna milljón? hafa allir notið vinsælda hér á landi. Nei, ráðherra (Out of Order) hlaut hin eftirsóttu Olivier-verðlaun sem besti gaman leikurinn í Bretlandi þegar verkið var frumsýnt. Verkið hefur slegið í gegn víða um heim en fer nú í fyrsta skipti á íslenskar leikhúsfjalir og er flutt í íslenskri heimfærslu Gísla Rúnars Jónssonar en hann hefur matreitt og kryddað marga af bestu gamanleikjum seinni ára hérlendis, m.a. Fló á skinni og Sex í sveit.

Nýjast