Fyrsti styrkurinn veittur úr dollarasjóði MND félagsins

Dollarasjóður MND félagsins hefur veitt Páli Ragnari Karlssyni sameindalíffræðingi og dr. Thomas Schmitt-John, leiðbeinanda hans í meistaranámi við Árósaháskóla í Danmörku, rannsóknastyrk að upphæð 26 þúsund dollarar eða um 2 milljónir ísl. króna til þess að vinna að gerð hagnýts skimunarprófs á MND-sjúklingum. Páll Ragnar fluttist frá Siglufirði til Akureyrar tólf ára gamall og útskrifaðist frá VMA. Hann nam hluta líffræðinámsins við Hákólann á Akureyri en megin hluti námsins fór þó fram í Aarhus í Danmörku. Styrkurinn sem þeir Páll Ragnar og leiðbeinandi hans fengu, er veittur úr dollarasjóði MND félagsins sem safnaðist í söfnuninni "Dollari á mann" sem lauk hér á landi í janúar. Stjórn MND félagsins úthlutar styrkjum úr sjóðnum í samráði við læknateymi sem í eiga sæti Grétar Guðmundsson taugalæknir á Landspítala, Peter Andersen yfirlæknir í Umea í Svíþjóð og Brian Dickie, yfirmaður rannsókna hjá bresku MND samtökunum Ákveðnar blöðrur inni í frumum flytjast á milli svæða. Talið er hugsanlegt að galli í þessum flutningum sé úrslitaþáttur fyrir hreyfitaugasjúkdóma eins og MND. Þróuð hefur verið stökkbreyting í Vps54 geni hjá músum sem inniheldur þennan galla ásamt því sem mýsnar hafa MND svipgerð sem líkist þeirri svipgerð sem MND-sjúklingar hafa.

Tilgangur rannsóknaverkefnisins er að búa til hagnýtt próf til greiningar á þessum galla með ræktun trefjakímfruma úr húðfrumum MND sjúklinga. Með þessu prófi væri hægt að komast að því hvort MND sjúklingar hafi þennan tiltekna galla. Að sama skapi er hægt að komast að því hversu hátt hlutfall MND sjúklinga hefur gallann. Notast verður við eiturefnapróf úr kólerubakteríu og svokallað mannósa-6-fosfat útbreiðslupróf. Síðar verður hægt að nota niðurstöður prófanna til lyfjafræðiskimunar þar sem skimað verður fyrir efnablöndum gegn gallanum sem gæti nýst við þróun á lyfjum fyrir MND-sjúklinga. Rannsóknaverkefnið er unnið af dr. Thomas Schmitt-John og Páli Ragnari Karlssyni, meistara­prófsnema við Árósaháskóla. Meðleiðbeinandi er dr. Zophonías Oddur Jónsson við Háskóla Íslands. Verkefnið er unnið í samvinnu við vísindamenn við háskóla í London, Mílanó á Ítalíu, Árósaháskóla og Umeå í Svíþjóð.

MND - Motor Nourone Disease er banvænn sjúkdómur sem ágerist venjulega hratt og herjar á hreyfitaugar líkamans sem flytja boð til vöðvanna. Af honum leiðir máttleysi og lömun í handleggjum, fótleggjum, munni, hálsi o.s.fv. Að lokum er um algera lömun að ræða. Vitsmunalegur styrkur helst þó óskaddaður. Líftími sjúklinga eftir að þeir fá sjúkdóminn er frá 1-6 ár en sumir lifa lengur. Á Íslandi eru á hverjum tíma 15-20 manns með MND. Á hverju ári greinast u.þ.b. 5 manns með MND. Ekki eru til nein lyf gegn MND, fyrir utan Riluzole sem aðeins lengir líf sjúklinga að hámarki í þrjá mánuði og linar ekki þjáningar þeirra.

Nýjast