Á aðalfundi Gilfélagsins sem haldinn var í síðustu viku var kosin ný stjórn og nýr formaður. Nýji formaðurinn er Guðmundur Ármann Sigurjónsson, en hann er jafnframt einn af stofnendum Gilfélagsins og fyrsti formaður þess. „Allir sem þekkja Guðmund vita að hann gerir hlutina vel og er trúr sinni hugsjón. Við hjá Gilfélaginu bjóðum hann hjartanlega velkominn til starfa og óskum honum til hamingju með formannsembættið,“ segir á vef Gilfélagsins.
Guðmundur lauk prentmyndasmíða námi árið 1962 við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og útskrifaðist af málunardeild 1966. Þaðan lá leiðin til Svíþjóðar þar sem Guðmundur hóf nám við Konsthögskolan Valand, Göteborgs Universitet 1966 og lauk þar námi við grafíkdeild skólans 1972. Kennararéttindarnám við Háskólann á Akureyri tók hann 2002-2003 og í framhaldi af því, meistaranám í kennslugrein lista við Háskólann á Akureyri. Hann hélt sína fyrstu einkasýningu á Mokkakaffi í Reykjavík 1962 og sýndi þar blekteikningar. Hann hefur síðan þá haldið á þriðja tug einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima og erlendis. Guðmundur Ármann var bæjarlistamaður Akureyrar 1994. /epe