Fyrsta skóflustungan að stækkun flugstöðvar á Akureyri

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra tekur fyrstu skóflustunguna á Akureyrarflugvelli í dag.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra tekur fyrstu skóflustunguna á Akureyrarflugvelli í dag.

Fyrsta  skóflustunga að stækkun flugstöðvar á Akureyrarflugvelli var tekin í dag en áætlað er að viðbygging við flugstöðina á Akureyri verði tekin í notkun um mitt árið 2023. Viðbyggingin verður um 1.000 fermetra stálgrindarhús fyrir millilandaflug og aðlögun núverandi flugstöðvar að breyttri notkun. Einnig er unnið að því að stækka á flughlaðið á Akureyrarflugvelli til að koma á móts við aukin umsvif og öryggi vallarins.

Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir í samtali við Vikublaðið að þetta sé gríðarlega ánægjulegt.

„Þetta er langþráð framkvæmd og mikið framfaraskref fyrir svæðið. Með þessari stækkun á flugstöðinni verður grundvallarbreyting á því sem hægt er að gera á flugvellinum og m.a. verður hægt að taka á móti innanlandsflugi og millilandaflugi á sama tíma, en í dag er það nánast ekki hægt með góðu móti. Þetta er jafnframt nauðsynlegt til að efla millilandaflug um Akureyrarflugvöll,“ segir Hjalti Páll.


Athugasemdir

Nýjast