Fyrsta skóflustungan að Konnasafni í Hörgársveit tekin í dag
Valgerður Sigurbergsdóttir matráðskona hjá verktakafyrirtækinu Skútabergi á Akureyri, tók í dag fyrstu skóflustunguna að Vinnuvélasafni Konráðs Vilhjálmssonar, að viðstöddu fjölmenni. Safnið verður reist til minningar um eiginmann Valgerðar og mun rísa á Moldhaugnahálsi norðan Akureyrar, í landi Skúta. Valgerður, sem jafnframt fagnar 70 ára afmæli sínu í dag, naut aðstoðar Guðmundar Sigvaldasonar sveitarstjóra í Hörgársveit við skólfustunguna.
Guðmundur sveitarstjóri lýsti yfir ánægju með þetta framtak og sagðist jafnframt vona að uppbygging þessi gengi bæði hratt og vel. Konnasafn er reist til minningar um Konráð Vilhjálmsson, sem lést í febrúar sl. Safnið er reist af fyrirtækinu Skútabergi, sem er í eigu fjölskyldunnar. Þór Konráðssonar, sonur þeirra Valgerðar og Konráðs, segir að í fyrsta áfanga verði reist um 60 fermetra gestamóttaka. Safnið sjálft verður gríðarlega stórt, um 275 metrar að lengd í suðaustur og 100 metrar til viðbótar í vestur. Þór segir að hugmyndin sé að nota golfbíla í safninu, þannig að t.d. eldra fólk geti ekið um það. Hann segir að það taki 4-5 ár að reisa safnið en varðandi kostnað segir Þór að menn hugsi sem minnst um hann.
Þór segir að faðir þeirra hafi byrjað að safna vinnuvélum fyrir mörgum árum og að safnið hafi stækkað jafnt og þétt. Hann segir að í nokkur ár hafi verið í aðal- og deiliskipulagi um 5.000 fermetra húsnæði ásamt gestamóttöku á þessum stað. "Við fengum samþykkt deiliskipulag fyrir þetta hús en faðir okkar féll frá í febrúar og við erum að fylgja eftir því sem hann var búinn að móta. Við fengum byggingarleyfið í gær og því var ekki um annað að ræða en að koma hlutunum af stað. Mamma er sjötug í dag og það hefur líka sitt að segja með þessa dagsetningu," sagði Þór.