Fyrsta óperusýningin í Hofi - Hymnodia setur upp Dido og Aeneas eftir Henry Purcell Barokkóperan Dido og Aenaeas eftir Henry Purcell verður flutt í menningarhúsinu Hofi á Akureyri sunnudaginn 1. apríl kl. 17. Flytjendur eru kammerkórinn Hymnodia og Barokksveit Hólastiftis undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar. Allir einsöngvarar í sýningunni koma úr röðum kórfélaga en með aðalhlutverkin fara Helena G. Bjarnadóttir og Michael Jón Clarke. Guðmundur Ólafsson leikstýrir verkinu og Ingibjörg Björnsdóttir semur og stýrir dansatriðum. Óperan Dido og Aeneas er gerð við libretto sem Nahum Tate byggði á eigin leikriti, Brutus of Alba, eða The enchanted lovers frá árinu 1678. Efniviðurinn er úr fjórðu bók sagnabálksins Aeneid eftir rómverka sagnaritaran Virgil. Þar segir frá flótta Aeneasar eftir Trójustríðið, samfundum hans og skilnaði við Dido og ferðalögum hans um Miðjarðarhafið til að fullnusta vilja guðanna, að reisa "nýja Tróju" á Ítalíu. Sagan er ástar- og harmsaga, en þó með léttum köflum. Rauði þráðurinn er sá að það eru guðirnir og forlögin sem ráða förinni og menn verða að hlíta sínum fyrir fram ákveðnu örlögum. Í verkinu er sorg og gleði, dulúð og kímni, enda koma fram spaugilegar en illkvittnar nornir og svellkaldir sjóarar en auðvitað líka virðulegur aðallinn, kóngur og drottning. Miðar eru seldir í Hofi og á www.midi.is