Fyrsta námskeiðið í nýja ökugerðinu á Akureyri

Ökumenn fá að reyna sig við ýmsar aðstæður í nýja ökugerðinu við Hlíðarfjallsveg.
Ökumenn fá að reyna sig við ýmsar aðstæður í nýja ökugerðinu við Hlíðarfjallsveg.

Fyrsta námskeiðið í nýja ökugerðinu, sem byggt hefur verið upp við Hlíðarfjallsveg á Akureyri, var haldið í vikunni. Þá mættu þangað þrír ungir ökumenn, sem reyndar allir eru komnir með bílpróf, og reyndu sig í ökugerðinu. Kristinn Örn Jónsson ökukennari og forsvarsmaður ökugerðisins, segir að ökumennirnir hafi verið ánægðir með þær aðstæður sem í boði eru. Ökugerðið á Akureyri er hið eina sinnar tegundar hér á landi. Samkvæmt reglugerð um ökukennslu eiga allir sem hófu ökunám eftir 1. janúar 2010 að fara á námskeið í ökugerði. Um er að ræða 5 kennslustundir, 3 bóklegar og 2 verklegar. Í ökugerðinu eru 5 brautir, 2 hálkubrautir og 3 aðrar til að æfa nauðhemlun, svigakstur, akstur framhjá hindrun, akstur út af malbiki og á malarbraut. Síðan fara nemendur í beltasleða og veltibíl.  Kristinn sagði að vegna veðráttunnar undanfarið hafi ekki verið hægt að nota svæðið fyrr en nú en hann vonast til að tíðin fari batnandi, þannig að hægt verði að koma starfseminni í fullan gang. Hægt er að fá nánari upplýsingar og skrá sig á námskeið á vefsíðunni; okugerdi.is.

Nýjast