Fyrsta frumsýning vetrarins hjá LA á föstudaginn
Leikfélag Akureyrar frumsýnir gamanleikinn Svörtu kómedíuna föstudaginn 14. október kl. 20.00 í Samkomuhúsinu. Um er að ræða verk eftir Peter Shaffer, skrifað árið 1965 og eitt af fáum gamanleikjum sem hann samdi. Frægustu verk hans eru AMADEUS og EQUUS sem bæði hafa verið sýnd á leiksviðum hér á landi. Síðar gerði Peter Shaffer sjálfur kvikmyndahandrit eftir verkunum og Amadeus í leikstjórn Milos Forman varð mjög vinsæl og hefur hlotið fjölmörg verðlaun.
Sýning LA á Svörtu kómedíunni er önnur uppfærsla verksins á Íslandi, leikritið var sýnt hjá Leikfélagi Reykjavíkur í Iðnó árið 1973 og var mjög vinsælt og uppselt á sýninguna í tvö leikár. Vigdís Finnbogadóttir þýddi verkið fyrir LR á sínum tíma, en hjá LA er notuð ný þýðing eftir Eyvind Karlsson. Svarta kómedían gerist í London árið 1965. Ungur, fátækur listamaður og unnusta hans fá ríkulega antíkhúsmuni að láni án leyfis til að ganga í augun á föður hennar, uppskrúfuðum og stífum offursta, og þýskum auðkýfingi sem er væntanlegur til að skoða verk listamannsins unga. Fyrirvaralaust fer rafmagnið af. Eigandi húsgagnanna kemur óvænt heim, fyrrverandi ástkona mætir óboðin og heimspekilegur rafvirki reynir að bjarga málunum. Eins og við er að búast er útkoman skelfilegur og sprenghlægilegur glundroði.
Leikarar í sýningunni eru: Anna Gunndís Guðmundsdóttir, Árni Pétur Guðjónsson, Einar Aðalsteinsson, Gestur Einar Jónasson, Guðmundur Ólafsson, Ívar Helgason, Sunna Borg og Þóra Karitas Árnadóttir. Leikstjóri sýningarinnar er María Sigurðardóttir, leikhússtjóri LA, leikmynd hannar Þórarinn Blöndal, búningahönnun er í höndum ODDdesign, lýsingu hannar Lárus H. Sveinsson og hljóðmynd og hljóðstjórn er í höndum Gunnars Sigurbjörnssonar. Það má segja að sýningin sé norðlensk í húð og hár, en allir listrænir stjórnendur koma af Akureyrarsvæðinu. Svarta kómedían á eftir að koma á óvart og skemmta ungum sem öldnum.