Fyrsta bókin um fálka hér á landi

Daníel Bergmann á fálkaslóðum í Mývatnssveit  Mynd Daníel Bergmann
Daníel Bergmann á fálkaslóðum í Mývatnssveit Mynd Daníel Bergmann

„Ég myndaði fyrst fálka við hreiður í Mývatnssveit sumarið 2000 og varð þá gjörsamlega heillaður af þessum fugli ásamt því stórbrotna landslagi sem hann lifir í á Norðurlandi. Ég myndaði síðan fálka af og til næstu árin en það var ekki fyrr en árið 2009 að sú hugmynd að gera bók kviknaði,“ segir Daníel Bergmann ljósmyndari og höfundur bókarinnar Fálkinn, en hún er nýkomin út. Daníel býður áhugasömum upp á fyrirlestur í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju í dag, fimmtudaginn 17. nóvember og hefst hann kl. 20.

Í fyrirlestrinum sýnir hann myndir úr bókinni og fjallar um tilurð þeirra. Hann segir sögur nokkurra fugla sem við sögu koma og fjalla einnig um sögu fálkaljósmyndunar fyrir sinn tíma. Áhugasamir geta orðið sér úti um áritað eintak af bókinni.

Daníel segir að til að gera fálkanum skil í ljósmyndum sé ekki nægilegt að mynda við hreiður hans að sumarlagi. Veturinn sé stór þáttur í lífshlaupi staðfugla á Íslandi. „Ég fór norður í Mývatnssveit þar sem ég þekkti til á fálkaóðali, og dvaldi þar í nokkrar vikur frá miðjum mars og fram í apríl. Ég endurtók þetta nokkur ár í röð og smám saman varð til safn mynda sem sýndu þá ólíku þætti sem ég var að leita eftir. Fuglana í vetrarríkinu, ýmiss konar atferli þeirra og nærmyndir af fálkum á snævi þöktum setstöðum,“ segir Daníel.

Það var ekki fyrr en á árinu 2021 sem hann var orðinn sáttur við  myndefnið og hófst handa við að setja bókin saman. Auk ljósmynda af fálkum, sem bera bókina uppi, er töluverður texti um líf- og vistfræði fálkans ásamt ýmsum reynslusögum, bæði eigin sögum og annarra. Einstöku sambandi fálkans og rjúpunnar, sem er hans meginbráð eru einnig gerð skil í bókinni. Alls eru í bókinni ljósmyndir sem spanna nær 23 ára tímabil, frá því fyrsta fálkamyndin var tekin og þar til verkið var klárt til prentunar. Parið í Mývatnssveit leikur stór hlutverk en það koma fleiri við sögu enda eru í henni ljósmyndir af 30 mismunandi fálkum og nokkrum ungum að auki.

 Langir dagar í felutjaldi

 Daníel hefur aðallega tekið fálkamyndir sínar á Norðurlandi, mest í Bárðardal og austur í Kelduhverfi. Óvíða er meira af rjúpu en á þessu landsvæði og því er þar einnig mest af fálkum. „Til að taka myndir af ránfuglum líkt og fálkum, sem kæra sig lítið um nærveru fólks, þá er ekki nóg að notast við öflugar aðdráttarlinsur heldur þarf oftast að fela sig á einhvern hátt. Ég hef mikið notað lítil felutjöld sem fljótlegt er að skella upp og í slíkum tjöldum hef ég margoft setið langa daga og beðið eftir að fálki komi og setjist á ákveðinn stað. Mér tókst einnig að vinna traust fálkaparsins sem ég myndaði mest með því að koma á óðalið þeirra ár eftir ár, alltaf eins klæddur og bar mig eins að. Ég er viss um að þau voru með tímanum farin að þekkja mig og ég gat athafnað mig í nærveru þeirra án þess að valda þeim styggð. Önnur leið til að fela sig er að mynda út um bílgluggann en fuglar hafa oftast meira þol fyrir bíl en gangandi manneskju. Þannig hef ég geta komist að fálkum sem ég hef séð nálægt bílvegum. En lykilinn að bók sem þessari er tíminn því það tekur einfaldlega langan tíma að safna jafn fjölbreyttu myndefni og í henni er að finna,“ segir Daníel sem fljótt tók þá stefnu að birta sem minnst af fálkamyndum sínum þannig að þær kæmu fyrst fyrir sjónir almennings í bókinni.

Fuglaskoðarar streyma til landsins í von um að sjá fálka

 Hann segir að ekki hafi áður verið gefin út bók um fálkann, þó svo hann sé nokkurs konar ókrýndur þjóðarfugl Íslendinga. „Fálkinn er stærsti fulltrúi fálkaættarinnar og sá fálka sem lifir nyrst á jörðinni. Hann byggir löndin allt umhverfis Norðurpólinn. Hér eru á milli 300-400 pör af fálkum og það er líklega ekki nema um 5% af heildarstofninum. En það er eflaust hvergi jafn líklegt að sjá fálka eins og á norðanverðu Íslandi og aðgengi til þess betra en annars staðar. Fuglaskoðarar streyma af þeirri ástæðu til landsins á hverju sumri í þeirri von að fá þann draum sinn uppfylltan að sjá fálka.“

 


Athugasemdir

Nýjast