Fyrrum bæjarfulltrúi sakar bæjarráð Akureyrar um spillingu

Akureyri. Mynd úr safni
Akureyri. Mynd úr safni

Sigurður Guðmundsson fyrrverandi bæjarfulltrúi á Akureyri sakar bæjarráð Akureyrar um spillingu í ferlinu þegar bærinn seldi KEA hlut sinn í fjárfestingafélaginu Tækifæri hf. Fyrir 120 miljónir króna. Ásakanirnar koma fram í pistli sem Sigurður ritaði á Facebook-síðu sína.

„Tækifæri hf. er fjárfestingafélag sem fjárfestir í nýsköpun á Norðurlandi. Félagið er í eigu fyrirtækja og sveitarfélaga á Norðurlandi eystra og vestra en alls eru hluthafar 33. Stærstu eigendur Tækifæris eru KEA svf., Akureyrarbær og Lífeyrissjóðurinn Stapi. Hlutafé Tækifæris er 765 mkr. og hefur hann fjárfest fyrir yfir 400 mkr. á Norðurlandi í samræmi við markmið sín,“ segir á heimasíðu Tækifæris.

Í færslu sinn segir Sigurður að bærinn hafi átt hlutafé í fjárfestingafélaginu sem að hefur sett fé í ýmis verkefni á svæðinu. „Sl. tvö ár hefur félagið gert eitt og annað í fjárfestingum. Árið 2014 skilaði félagið 90 milljón króna hagnaði og methagnaður varð árið 2015 þegar félagið er rekið með 384 milljón króna hagnaði samkvæmt fréttum þann 20. maí síðastliðinn,“ skrifar hann.

Leynd yfir söluferlinu

Þá vill Sigurður meina að það sé á huldu hvað hafi gerst rétt fyrir áramót. „Rekstrarárið liðið og þeir sem liggja á tölum vita næstum upp á hár hvernig afkoman er eftir árið, því félagið þ.e. Tækifæri hf. hefur ekki gert neitt nema fylgjast gaumgæfilega með félögum í sinni eigu og vita að reksturinn hefur gengið vel. Það gerspillta félag KEA leitar því til bæjarins og falast eftir eignarhlut bæjarins fyrir um 120 milljónir sem er sú tala sem menn hafa staðfest mjög nærri lagi“.

Sigurður bedir á að Dan Brynjarsson fjármálastjóri bæjarins hafi kynnt málið og ekki séð neitt athugavert við söluna. Hvorki með tilliti til verðs eða framkvæmd söluferlisins. „Málið er afgreitt og salan samþykkt í bæjarráði. Til að ekkert leki nú út um þessi undarlegu viðskipti eru þau færð í trúnaðarbók bæjarráðs. Lokað að eilífu og munnurinn saumaður saman með sláturgarni svo ekki sé hægt að tjá sig um þetta framar,“ skrifar Sigurður.

Verðmat ekki framkvæmt af óháðum aðila

Þá setur Sigurður spurningamerki við það afhverju ekki hafi verið leitað eftir verðmati í félagið og ekki settur fyrirvari í sölusamning um góða afkomu félagsins fyrir árið 2015. „KEA hefur væntanlega vitað upp á hár hvað þeir voru að gera. Innherjaviðskipti eins kristaltær og þau geta orðið.“

Hann veltir því einnig fyrir sé afhverju formaður bæjarráðs, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, sem einnig er skrifstofustjóri Stapa lífeyrissjóðs sem er einn stæsti hluthafinn í Tækifæri hf., situr fundinn þar sem salan er samþykkt. Sigurður vill meina að hann hafi verið vanhæfur.

„Þetta er augljóst dæmi um spillingu og skerta dómgreind hjá bæjarstjórn Akureyrar. Þar er enginn undanskilinn hvar í flokki sem þeir standa því enginn hefur gert athugasemdir við þetta og nú eru rúmir 9 mánuðir liðnir frá þessum viðskiptum,“ ritar Sigurður og bætir við: „Það er næstum heimsmet í heimsku að selja 16,3% hlut í félagi sem er á bókfærðu virði 144 milljónir á 120 milljónir. Félag sem síðan skilar 384 milljónum í hagnað nokkrum vikum síðar. Hagnaðarhlutur bæjarins er 125 milljónir á tveimur slíkum árum.“

Sigurður er mjög hugsi yfir því að hlutur bæjarins í Tækifæri hf. hafi ekki verið boðinn út í opnu söluferli og þar af leiðandi mögulega fengið hærra verð. Hann segir jafnframt að bæjarstjórn Akureyrar beri öll ábyrgð á málinu.

Rétt í þessu tjáði Njáll Trausti Friðbertsson bæjarfulltrúi sig um málið á umræðuþræði undir færslunni. Þar tekur hann undir með Sigurði um að ýmislegt hafi fraið forgörðum í þessu máli. Hann vill jafnframt vekja athygli á því að ósanngjarnt sé að bendla alla bæjarfulltrúa við málið.

„Þetta mál var að öllu leyti til meðhöndlunar í bæjarráði og fært í trúnaðarbók. Ég á ekki sæti í bæjarráði svo því sé haldið til haga. Þannig að ég hef aldrei samþykkt þessa sölu fyrir mitt leyti,“ skrifar Njáll. Hann undrast eins og Sigurður að ekki hafir verið fenginn óháður aðili til að verðmeta Tækifæri hf. og  eins lýsir hann furðu sinni á þeirri leynd sem hvílir á söluferlinu.

Fréttin var uppfærð kl 14:57

Vikudagur hafði samband við tvo bæjarráðsmenn Guðmund Baldvin Guðmundsson og Loga Már Einarsson til að fá upplýsingar um málið. Þeir sögðu að málið væri mjög flókið og að bæjarráð hyggðist hittast fljótlega eftir hádegið til að fara yfir málið. „Við þurfum að leita ráðlegginga um það hvort við höfum staðið rétt að þessu eða hvort við höfum hlaupið á okkur,“ sagði Logi Már. Hvorugur vildi tjá sig nánar um málið fyrr en búið væri að  fara yfir það.

En eins og fyrr segir hefur bæjarráð ákveðið að hittast eftir hádegi í dag föstudag til að ræða málið. Enn hefur ekki fregnast af þeim fundi eða hvort hann hafi farið fram.

Nýjast