Fyrirtækið Globodent verður selt

Ákveðið hefur verið að selja félagið Globodent á Akureyri, fyrirtæki sem varð til í kringum hugmynd Egils Jónssonar tannlæknis. Fyrirtækið var stofnað fyrir nokkrum árum og vann að því að þróa tæki og aðferðir til að gera við tennur með stöðluðum fjöldaframleiddum fyllingum bæði úr plasti og postulíni. Bundnar voru vonir við að með nýrri tæki á þessu sviði myndi tannlæknakostnaður minnka til muna og atvinnusjúkdómum tannlækna fækka. „Þetta eru vissulega mikil tímamót. Mér þykir þetta sorglegt, en við þessu er ekki neitt að gera," segir Egill Jónsson sem unnið hefur að framgangi fyrirtækisins um nokkrra ára skeið. Hann segir að á hluthafafundi sem boðað var til nýverið hafi áhugi stærstu hluthafa á að auka hlutafé sitt í félaginu ekki verið fyrir hendi. Fyrirtækið hafi verið komið á það stig að umtalsverða peninga vantaði til að halda áfram þróunarstarfi, „en hluthafar voru ekki tilbúnir að leggja fram meiri peninga," segir Egill.

Stærstu hluthafarnir eru Akureyrarbær, Byggðastofnun, Tækifæri og Nýsköpunarsjóður en að auki er fjöldi smærri hluthafa þátttakendur í verkefninu. „Það þarf mikið fé þegar menn ætla sér stóra hluti," segir Egill, en að hans mati tekur um tvö ár til viðbótar að búa til söluhæfa vöru úr þeim hugmyndum sem unnið er með. Þolinmæði fjárfesta hafi hins vegar ekki verið fyrir hendi. „Verkefnið er þó gott og framtíðin björt," bætir hann við. Sjö ár eru nú liðin frá því Egill vann til verðlauna Nýsköpunarsjóðs fyrir hugmynd sína og frá þeim tíma hefur hann aflað sér einkaleyfa út um allan heim á hugmynd sinni. Það sem nú verður selt eru þær rannsóknir sem til eru og einkaleyfin. Gert er ráð fyrir að söluferlið muni taka nokkra mánuði og ekki verði að fullu ljóst fyrr en með vorinu næsta hvert félagið lendir.

„Það var ákveðið að staldra nú við og reyna að selja þetta. Það er auðvitað hræðilega sárt og auðvitað líður mér ekki vel," segir Egill. „Ég er nú samt þannig að ég er aldrei tilbúinn að gefast upp."

Nýjast