Fyrirtækið Múr- og málningarþjónustan Höfn ehf. í Reykjavík bauð lægst í endurbætur á Hafnarstræti 107 á Akureyri, þar sem en tilboðin voru opnuð í dag. Fyrirtækið bauð rúmar 158,5 milljónir króna, eða 79,90% af kostnaðaráætlun. Alls bárust átta tilboð í verkið, sem öll nema eitt voru undir kostnaðaráætlun og eitt frávikstilboð. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á rúmar 198,4 milljónir króna. Næst lægsta tilboð í verkið átti Tréverk ehf. á Dalvík, um 163 milljónir króna, eða 82,16% af kostnaðaráætlun.
Í Hafnarstræti 107 eru til húsa, Héraðsdómur Norðurlands eystra, Sýslumaðurinn á Akureyri og Sjúkratryggingar, Tryggingastofnun og tollstjóri. Verkið felst í að endurnýja að verulegu leyti allt innanstokks á annarri og þriðju hæð ásamt kjallara, Brúttóstærð rýmis er um 1.500 fermetrar. Verktími er frá febrúar 2012 til 15. mars 2013. Hlaðir ehf. byggingarfélag átti þriðja lægsta tilboðið, rúmar 166,7 milljónir króna, eða 84,05%, þá ÁK smíði ehf. rúmar 175,2 milljónir, 88,33%, SS Byggir bauð 176,2 milljónir, 88,83%, Eykt ehf. bauð rúmar 192 milljónir, 96,81%, Fjölnir ehf. bauð rúmar 196,8 milljónir, 99,21% og ÍAV bauð rúmar 208,6 milljónir króna, eða 105,14%. SS Byggir var einnig með frávikstilboð, það hljóðaði upp á rúmar 156,8 milljónir króna, eða 79,05%. Tilboðin eru til yfirferðar hjá Framkvæmdasýslu ríkisins.