Fræðslunefnd Norðurþings fjallaði á fundi sínum fyrir skömmu um erindi Sigríðar Valdísar Sæbjörnsdóttur, leikskólastjóra á Grænuvöllum, um þörf á fjölgun leikskólaplássa á Húsavík vegna væntanlegrar fjölgunar barna á leikskólaaldri næstu árin með tilkomu fyrirtækja á Bakka. Leikskólastjóri sat nýbúafund nýverið og samkvæmt því sem þar kom fram lítur út fyrir að það þurfi að fjölga plássum í síðasta lagi í janúar 2018.
120 ný störf fylgja verksmiðju á Bakka og eins og staðan er nú er leikskólinn nánast fullnýttur. Í þessu samhengi þarf einnig að ákveða hvað eigi að gera varðandi skúraviðbyggingu sem bætt var við Grænuvelli. Skýrsla leikskólastjóra og fræðslufulltrúa um leiðir til fjölgunar plássa var einnig lögð fram til kynningar á fundinum
Sigríður Valdís telur líklegt að þörf verði á þremur nýjum deildum. Fræðslunefnd tekur undir áhyggjur Siggu Valdísar og telur brýnt að horft verði til framtíðar og möguleiki á byggingu nýs leikskóla kannaður. JS