Ólafur Ásgeirsson skrifar
Bílar hafa alltaf verið sígilt áhugamál sérstaklega hjá karlmönnum og konur eru einnig ótrúlega áhugasamar um bíla. Hér áður fyrr höfðum við Akureyringar og Eyfirðingar bílnúmer sem byrjuðu á A, var engin maður með mönnum nema eiga a.m.k. þriggja stafa númer og þá helst tveggja hvað þá eins tölustafs númer. Síðari árin sem þessi númer voru í gildi lögðu sumir ótrúlega mikið á sig að eignast lágt bílnúmer og keyptu oft bíla á yfirverði ef númerin fylgdu með. Það gat verið mjög þægilegt að vita hvaðan bílar voru með því að skoða bílnúmerin. Á fyrstu árum vélsleðanna var það algengt að þeir sem fóru héðan upp á hálendið áður en GPS tækin komu til sögunnar voru ekki alveg vissir á að rata heim. Mikið af giljum og dölum ná saman uppi á fjöllum og stundum fóru menn vitlausan dal eða gil og ef menn voru ekki vissir var það siður að skoða bílnúmer á fyrsta bæ sem komið var á. Ef númerið var Þ höfðu þeir lent niður í Þingeyjarsýslu, ef númerið var A voru menn í Eyjafirði en verra var ef það var K því þá höfðu men lent í Skagafirði. Árið 1945 eða strax eftir stríð voru fyrstu þrjátíu bílnúmer á Akureyri eins og hér segir.
A 1 Crysler 1941 Eig. Kristján Kristjánsson
A 2 Dixyflayer 1922 - Óskar Sigurgeirsson
A 3 Dodge 1942 - Kristján Kristjánsson
A 4 Chrysler 1942 - Jakob Frímannsson
A 5 Buick 1941 - Ingimundur Árnason
A 6 Ford 1937 - Steypuverkstæði Akureyrar
A 7 Chevrolet 1942 - Kaupfélag Eyfirðinga
A 8 Chrysler 1942 - Jón Geirsson
A 9 Ford 1939 - Kristján Kristjánsson
A 10 Pontiack 1929 - Stefán Jónsson
A 11 Engin á skrá
A 12 Opel 1937 - Guðmundur H Arnórsson
A 13 Ford 1931 - Guðmundur Benediktsson
A 14 Chevrolet 1941 - Snæbjörn Þorleifsson
A 15 Engin á skrá
A 16 Ford 1930 - Akureyrarkaupstaður
A 17 Pontiack 1929 - Vilhelm Þórarinsson
A 18 Fiat 1934 - Ingólfur Bjargmundsson
A 19 Engin á skrá
A 20 Ford 1935 - Andrés G Ísfeld
A 21 Chevrolet 1930 - Jón Davíðsson
A 22 Dodge 1942 - Jakob Karlsson
A 23 Studebaker 1934 - Vilhjálmur Aðalsteinsson
A 24 Engin á skrá
A 25 Ford 1935 - Sigurður Helgason
A 26 Ford 1935 - Höskuldur Steindórsson
A 27 Chevrolet 1929 - Ragnar Stefánsson
A 28 Chevrolet 1939 - Karl Jónsson
A 29 Ford 1942 - Kristján Kristjánsson
A 30 Studebaker 1934 - Unnsteinn Stefánsson
Á þessari skýrslu má sjá að menn hafa ekki verið eins áhugasamir um bílnúmer á þessum fyrstu árum eftir stríð því svo virðist sem flest þessi númer hafi farið eitthvað á flakk út úr fjölskyldunum. Kristján Kristjánsson hefur haldið sínum númerum og sama má segja um KEA og kaupfélagsstjórana. A 6 hélst líka í sömu fjölskyldu og sama má segja um A 22. Þarna hafa yngstu bílarnir verið þriggja ára en þeir elstu sextán ára. Skrítið að sjá að Kristján Kristjánsson sem var með umboð fyrir Ford átti bæði Crysler og Dodge, eða hafði hann einnig umboð fyrir þessi merki? Einn af þessum bílum A 2 er ennþá til og er hann á Flugsafninu en eigandi hans er Arngrímur Jóhannsson.
Höfundur er fyrrv. aðstoðaryfirlögregluþjónn.