Fylla þarf upp í tugmilljóna króna gat hjá HA á næsta ári

Háskólasvæðið á Sólborg. Mynd: Hörður Geirsson.
Háskólasvæðið á Sólborg. Mynd: Hörður Geirsson.

„Þetta kemur ekki á óvart, við áttum von á þessum niðurskurði enda var búið að boða hann," segir Úlfar Hauksson forstöðumaður fjármála Háskólans á Akureyri, en samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012 verða framlög til háskólans skorin niður um 2% til að mæta markmiðum ríkisstjórnarinnar um samdrátt í ríkisútgjöldum.

Háskólinn á Akureyri mun samkvæmt frumvarpinu fá um 1300 milljónir króna til rekstrarins á næsta ári og er að sögn Úlfars um 5% hækkun á framlagi í krónutölu að ræða miðað við þetta ár. Hann segir að fljótt á litið dugi sú upphæð fyrir þeim kjarasamningum við starfsmenn sem búið er að gera. Sama sé ekki uppi á teningnum varðandi aðrar kostnaðarhækkanir og að óbreyttu nægir framlagið ekki til að Háskólinn á Akureyri geti staðið við sínar skuldbindingar.

„Við því verður að bregðast, það er alveg ljóst og þær leiðir sem færar eru í þeim efnum er annars vegar að skera niður í rekstri og eða auka tekjur," segir Úlfar og bætir við að um tugmilljóna króna gat sé þar við að fást sem fylla þurfi upp í. Aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til í sparnaðarskyni munu skila sér á næsta ári. „Við reynum allt hvað við getum til að endar nái saman," segir hann.

Nýjast