Fylgst verði með ástandi umhverfisins á Akureyri

Umhverfisnefnd Akureyrarbæjar leggur til að hafinn verði undirbúningur að því að taka upp umhverfisvísa í upplýsingakerfum bæjarins.  Kristín Sigfúsdóttir umhverfisfræðingur kynnti nefndinni á dögunum hvað í umhverfisvísum felst en hún hefur beint því til nefndarinnar að slíkir vísar verði unnir fyrir Akureyrarbæ.  

Hún segir að með umhverfisvísum séu lífgæði mæld, en nefna megi í þessu sambandi vatnsgæði, málefni er varða úrgang, orkunotkun, loftgæði og hávaða.  "Það er ótrúlega þægilegt að hafa upplýsingar um allt þetta saman á einum stað, t.d. á vef Akureyrarbæjar en upplýsingar af þessu tagi er að finna á vef Reykjavíkurborgar, þar geta menn t.d. fylgst með svifryksmengun frá degi til dags," segir Kristín.

Hún segir að ekki sé mikið mál að setja kerfið upp og kostnaðurinn eigi heldur ekki að vera ýkja mikill, "en skilar sér margfalt til baka," segir Kristín og bendir á að grindin að mælingunum sé til og vísar í meistaraprófsritgerð sína og Sóleyjar Jónasdóttur sem fjallar um umhverfisvísa fyrir Akureyrarbæ.  Hún segir að umhverfisvísar, einkum ástandsvísar lýsi umhverfinu eins og það kemur fyrir sjónir og með þeim sé leitað ítarlegra upplýsinga sem leiðbeini okkur í átt að sjálfbærri þróun bæjarfélagsins.  "Þessir vísar gera okkur kleift að fylgjast með breytingum á umhverfinu og bregðast við veikleikamerkjum fyrr og öruggar en hingað til," segir Kristín.  Hún bendir jafnframt á að mælingar og rannsóknir á umhverfinu megi nota til að fylgjast með ástandi þess,"og bregðast við ef þess er þörf."

Umhverfisvísar sem gerðir eru með viðurkenndum aðferðum geta gert sveitarfélögum kleift að meta ástand sitt í umhverfismálum og þau geta einnig borið sig saman við önnur sveitarfélög í þessum efnum.  Kristín segir að á komandi árum verði æ algengara að sveitarfélögum verði gefin sjálfbærnieinkunn, sem muni væntanlega byggjast á umhverfisvísitölum sem fengnar verði með mælingum á ástandi umhverfisins og nefnir að Akureyri vilji örugglega ekki verða eftirbátur annarra sveitarfélaga í þessum efnum.  Þannig þurfi bærinn að taka sig til og gera gæði lífsins mælanleg og til þess séu umhverfisvísar vel fallnir.

Nýjast