Samfylkingin í Þingeyjarsýslum telur heldur ekki ráðlegt að efna til kosninga nú, þegar þjóðin er í miðjum ólgusjó kreppu og risavöxnum vandamálum sem þurfa úrlausna strax. Margra vikna kosningabarátta, við þessar aðstæður sé ábyrgðarleysi. Ennfremur segir í ályktuninni: "Í þeim samdrætti sem nú blasir við á Samfylkingin að standa vörð um velferðarkerfi þjóðarinnar. Leita verður allra leiða til þess að draga úr atvinnuleysi og sívaxandi skuldabyrði heimilanna. Forgangsröðun jafnaðarmanna verður að halda.
Samfylkingin í Þingeyjarsýslum leggur á það þunga áherslu að haldið verði áfram atvinnuuppbyggingu á Norðausturlandi og ekki kvikað frá þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið við uppbyggingu álvers við Bakka og nýtingu þeirrar orku sem er hér á svæðinu. Með því móti verða til hundruð starfa sem nauðsynleg eru til að vega á móti því atvinnuleysi sem nú þegar er brostið á og mun aukast verulega á næstu mánuðum. Við lýsum yfir fullum stuðningi við þau sjónarmið sem formaður flokksins Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur talað fyrir lengi og ítrekað nýverið um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Samfylkingin hefur leitt og mun leiða umræðuna um aðild að Evrópusambandinu og ber því að hefja aðildarviðræður á næstu mánuðum. Nú í fyrsta skiptið er möguleiki að þetta baráttumál Jafnaðarmanna á Íslandi hljóti aukin stuðning almennings.
Innganga í Evrópusambandið er eitt brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar. Aðild að Evrópusambandinu er efnhagsleg og félagsleg nauðsyn fyrir íbúa þessa lands. Skilgreina verður samningsmarkmið aðildarviðræðna vegna inngöngu í Evrópusambandið. Að þeim loknum fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um fulla aðild að sambandinu og upptöku Evru sem framtíðar gjaldmiðils þjóðarinnar."