Fulltrúi umboðsmanns skuldara til Akureyrar fyrir jól?

Lengi hefur verið unnið að því að fá fulltrúa frá embætti umboðsmanns skuldara til starfa á Akureyri en án árangurs. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri segir að bæjaryfirvöld hafi verið í áframhaldandi viðræðum við embættið og að nú sé verið að vinna að því að finna hentugt húsnæði. "Við höfum bent á húsnæði hjá okkur og fulltrúi þeirra mun koma fljótlega til að skoða það. Stefnt er að því að opna fyrir jól," segir Eiríkur Björn.

Embætti umboðsmanns skuldara er ríkisstofnun sem umboðsmaður skuldara veitir forstöðu. Stofnunin tók til starfa 1. ágúst 2010 og heyrir undir velferðarráðherra. Hún er byggð á grunni Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Meginmarkmiðið er að bæta stöðu einstaklinga sem eiga í skulda- og greiðsluerfiðleikum í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 og auðvelda þeim að koma greiðslubyrði og skuldastöðu í ásættanlegt horf. Umboðsmaður skuldara skal hafa hagsmuni skuldara og réttindi þeirra að leiðarljósi. Umboðsmanni er einnig ætlað viðamikið hlutverk varðandi greiðsluaðlögun. Hlutverk umboðsmanns skuldara samkvæmt lögum er m.a. að gæta hagsmuna skuldara og veita þeim aðstoð þegar við á. Einnig á hann að veita einstaklingum sem eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum endurgjaldslausa aðstoð við að öðlast heildarsýn á fjármál sín og leita leiða til lausnar. Í kjölfarið að hafa hafa milligöngu um samskipti og samninga við lánardrottna með hagsmuni skuldara að leiðarljósi. Markmiðið er að ná fram eins hagstæðri lausn og kostur er fyrir skuldara, án tillits til þess hvaða áhrif sú lausn hefur á hagsmuni einstakra kröfuhafa. Önnur hlutverk eru að veita aðstoð við gerð samninga um greiðsluaðlögun og að veita alhliða ráðgjöf og fræðslu um fjármál heimilanna. Að lokum skal nefna að hann á að útbúa framfærsluviðmið og uppfæra þau reglulega og taka við erindum og ábendingum skuldara um ágalla á lánastarfsemi og senda áfram til viðeigandi eftirlitsstjórnvalds. Stofnunin á einnig að vera velferðarráðherra til ráðuneytis um málefni skuldara og stefnumörkun á því sviði, samkvæmt því sem fram kemur á vef ráðuneytisins.

Nýjast