Anna Sjöfn Jónasdóttir fulltrúi L-listans í skólanefnd Akureyrar lagði fram bókun á fundi nefndarinnar í gær, þar sem hún mótmælir vinnubrögðum bæjarfulltrúa L-listans með frestun gildistöku fyrirhugaðrar breytingar á morgunverði í leikskólum Akureyrarbæjar, þar sem gengið var þvert á ákvörðun skólanefndar og án samráðs við nefndina. Eins og fram kom í Vikudegi nýlega sagði Sigurveig Bergsteinsdóttir af sér sem formaður skólanefndar og hún sagði jafnframt skilið við L-listann.
Sigurveig hefur starfað lengi með L-listanum en ástæða þess að hún hætti er sú, að hún var ósátt við að ákveðið hafi verið að endurskoða fyrirhugaðar breytingar á morgunverði leikskólabarna og að kynningarfundi vegna málsins, sem átti að vera á dögunum, hafi verið aflýst án þess að rætt hafi verið við hana um málið.
Á fundi skólanefndar í gær lagði meirihluti nefndarinnar fram þá tillögu á fundinum, að fresta fyrirhuguðum breytingum á morgunverði í leikskólum Akureyrarbæjar sem samþykktar voru í fjárhagsáætlun 2012. Þá var einnig lagt til að leitað yrði samráðs við foreldraráð, stjórnendur og starfsmenn leikskóla um það hvaða breytingar verði gerðar og hvernig þeim verði best hrint í framkvæmd. Skólanefnd samþykkti að vísa málinu til bæjarráðs.