Fullkomið kvikmyndahljóðver í Hofi vígt í haust

Í Hofi verður fullbúið kvikmyndahljóðver. Mynd/Auðunn Níelsson
Í Hofi verður fullbúið kvikmyndahljóðver. Mynd/Auðunn Níelsson

Upptökur á tónlist við eitt stærsta kvikmyndaverkefni Íslandssögunnar til þessa fer fram í Hofi á Akureyri í september í glænýju hljóðveri sem verður vígt við það tilefni. Um er að ræða tónlist eftir Atla Örvarsson tónskáld við myndina „Lói þú flýgur aldrei einn“, sem verður ein allra dýrasta íslenska myndin sem gerð hefur verið en framleiðslukostnaður myndarinnar nemur rúmum milljarði króna. Myndin er teiknimynd og er framleidd í samvinnu við belgíska myndbrellufyrirtækið Cyborn og hefur myndin þegar verið seld til 30 landa.

Þetta verður sjötta kvikmyndaverkefnið sem MAk kemur að. Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarstjóri MAk, segir í samtali við Vikudag að hljóverið verði afar fullkomið.

„Þetta er mjög spennandi verkefni og verður gaman að nota í fyrsta sinn „brúnna í togaranum “, sem er kontrólherbergi, eða hljóðver sem Akureyrarbær hefur lagt okkur lið við að koma upp undanfarin ár í samvinnu við Atla Örvarsson og Tónlistarskálann á Akureyri,“ segir Þorvaldur Bjarni. „Hingað til hefur kontrólherbergið verið í einu af herbergjum tónlistarskólans en það hentar skólastarfsemi illa, því það verður þá að stöðva kennsluna á meðan upptökum stendur Tónlistarskólinn á Akureyrar hefur reyndar stutt þetta verkefni með ráð og dáð síðustu árin og kemur til með að njóta góðs af nærverunni við hljóðverið og starfsemina sem þar fer fram. Í september verður hér í Hofi fyrsta flokks aðstaða fyrir framleiðendur, leikstjóra og tónskáld hvaðan að úr heiminum sem vilja nýta sér svona þjónustu,“ segir Þorvaldur. „Þá verður allt orðið klárt og við getum auglýst aðstöðu á heimsmælikvarða, það skapar ákveðna möguleika.“

Þorvaldur segir MAk hafa hugsað stórt frá upphafi en þremur mánuðum eftir stofnun var fyrsta kvikmyndaverkefninu ýtt úr vör. „Þetta hefur gengið ljómandi vel og gengur vonandi enn betur með tilkomu betri hljóðvistar,“ segir Þorvaldur og bætir við að útsýnið úr hljóðverinu spilli ekki fyrir. „Fólk horfir yfir fallegan Eyjafjörðinn sem getur hæglega verið „innspírerandi“ fyrir þá sem þar vinna.“

Upptökuverkefnin á vegum MAk hafa verið undir merki ACO hingað til en verða nú undir nafninu SinfoniaNord. „Þannig tengjum við verkefnið betur við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands,“ segir Þorvaldur.    

 

Nýjast