Fúavarnir

Svavar Alfreð Jónsson.
Svavar Alfreð Jónsson.

Á Syðri-Brekkunni á Akureyri býr heimilisfaðir sem á til að fyllast kvíða fyrir ákveðnum viðhaldsverkefnum og humma þau fram af sér. Nauðsynlega þurfti að bera á sólpallinn svo hann dreif í að að kaupa fúavörn. Lengra varð þó ekki komist í verkefninu en það. Næstu vikurnar stóð olían í fötu sinni á umræddum palli því ýmist var of kalt, blautt eða hlýtt til að láta verkin tala. 

Eiginkona heimilisföðurins var auðvitað fullfær um að vinna verkið en ekki vildi hann láta um sig spyrjast að framkvæmd sem hann hefði tekið að sér lenti á henni. 

Loks þegar þær aðstæður sköpuðust, að hægt var að hefja fúavarnaraðgerðir var ekki nema dagur í garðpartý sem átti að fara fram á nýfúavörðu dekkinu. Mátti maðurinn því engan tíma missa. Fylltist hann miklu fúavarnarkappi og hófst handa með ægilegum bægslagangi. Var engu líkara en margir penslar væru á lofti í einu. Þegar upp var staðið hafði hann fúavarið pallinn á mettíma en ennfremur neðri hlutann á rósarunna, þá hliðina á graslauknum sem snéri að pallinum, annan garðstrigaskó eiginkonunnar, afturlappirnar á sólstólnum hennar, einn poka af grillkolum, tveggja metra part af garðslöngunni og eigin föt og skó að verulegu leyti. 

Pallurinn og hinir fúavörðu munir og jurtir bíða nú óttalaus haustrigninganna. 

 


Athugasemdir

Nýjast