FSA boðar til borgarafundar

Sjúkrahúsið á Akureyri, FSA, hefur boðað til boðað til opins borgarafundar í Hofi , annað kvöld, þriðjudaginn 21. júní klukkan 20:00. Tilgangurinn er að heyra raddir íbúa á svæðinu vegna nýrrar stefnumörkunar sem yfirstjórn spítalsans er nú að vinna, en í stefnumótuninni verða m.a. lagðar áherslulínur um það hvenig þeim takmörkuðu fjármunum sem spítalinn fær verður varið. Því hafa fulltrúar sjúklingasamtaka, sveitastjórnarmenn og aðrir áhugasamir verið hvattir til þess að nýta tækifærið og koma skoðunum sínum á framfæri á þessum opna fundi. Áætlunin er síðan að kynna nýja framtíðarsýn og stefnu FSA í október næstkomandi.

Þorvaldur Ingvarsson fer fyrir þessari stefnumótunarvinnu en hann kynnti hana m.a. á ársfundi spítalans fyrir skömmu.: “Eftir að hafa horft örstutt um öxl er kominn tími til að horfa fram á við,” sagði Þorvaldur í ræðu sinni á ársfundinum. “Hér á spítalanum höfum við mikinn mannauð sem við ætlum að virkja til að vinna með okkur í mótun nýrrar framtíðarsýnar og stefnu fyrir FSA. Við viljum tileinka okkur ný vinnubrögð þar sem við erum opin fyrir breytingum og viljum tryggja öryggi sjúklinga og starfsumhverfi okkar. Við þurfum að vinna betur saman til þess að nýta betur verðmæti og fjármuni í þágu samfélagsins. Aukið samstarf við heilbrigðisstofnanir á Norður og Austurlandi svo og við Landspítalann er lykilatriði.”

            Hann sagði að í nýrri framtíðarsýn kæmu örugglega fram nýjar áherslur. “Fagrýni getur leitt til þeirrar niðurstöðu að við getum ekki haldið úti öllum sérgreinum eða þurfum að taka upp nýja þjónustu. Víðtæks samráðs er þörf. Meginatriði er að tryggja þjónustu við sjúklinga á landsbyggðinni.”

Þorvaldur sagði að í vinnu við nýja framtíðarsýn verði leitað upplýsinga og hlustað á raddir sem flestra hagsmunaaðila svo sem sjúklingasamtaka, starfsfólks og stjórnvalda og er borgarafundurinn annað kvöld liður í því samráði. Forstjóri hefur átt fundi með starfsmönnum og stefnt er að því að allir geti komið sínum sjónarmiðum á framfæri.  

Nýjast