Frumvarp að nýrri stjórnarskrá samþykkt samhljóða

Stjórnlagaráð samþykkti samhljóða frumvarp að nýrri stjórnarskrá á 18. ráðsfundi. Frumvarpið telur rúmlega 110 ákvæði í níu köflum. Frumvarpið verður afhent Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, föstudaginn 29. júlí kl. 10.30. Að afhendingu lokinni hefst blaðamannafundur. Frumvarpið verður birt á vef Stjórnlagaráðs innan skamms.  

Fyrsti kafli frumvarpsins fjallar um undirstöður og telur alls 5 ákvæði. Þar kemur m.a.

fram að Ísland sé lýðveldi með þingræðisstjórn.

Annar kafli frumvarpsins ber heitið Mannréttindi og náttúra og telur 31 ákvæði eða

um helmingi fleiri ákvæði en í núverandi stjórnarskrá. Margar nýjungar koma fram í

kaflanum. Þar má telja ákvæði um náttúru Íslands og umhverfi, auðlindaákvæði, þar

kemur fram að auðlindir sem ekki eru í einkaeigu séu sameiginleg og ævarandi eign

þjóðarinnar. Þá kemur fram ný grein um að stjórnvöldum beri að upplýsa almenning um

ástand umhverfis og náttúru og áhrif framkvæmda þar á. Jafnræðisreglan er ítarlegri

en í núgildandi stjórnarskrá og sérstaklega er kveðið á um að öllum skuli tryggður réttur

til að lifa með reisn. Kveðið er á um að öllum börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og

umönnun sem velferð þeirra krefjist. Sérstaklega er kveðið á um að öllum sé frjálst að

safna og miðla upplýsingum og að stjórnsýsla skuli vera gegnsæ. Í nýju ákvæði um

frelsi fjölmiðla kemur m.a. fram að frelsi þeirra, ritstjórnarlegt sjálfstæði og gegnsætt

eignarhald skuli tryggja með lögum.

Þriðji kafli frumvarpsins ber heitið Alþingi og telur alls 39 ákvæði. Mörg nýmæli koma

fram í kaflanum sem miðar m.a. að því að styrkja störf löggjafarvaldsins og efla

eftirlitshlutverk Alþingis. Áhersla er lögð á aukna lýðræðislega þátttöku almennings en

samkvæmt drögunum geta tíu af hundraði kjósenda krafist þjóðaratkvæðis um lög sem

Alþingi hefur samþykkt og tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi.

Meðal nýmæla í kaflanum er kveðið á um að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu

vegi jafnt. Kveðið er á um að kjósandi geti með persónukjöri valið frambjóðendur þvert

á lista en heimilt sé að mæla fyrir um í lögum að valið sé einskorðað við kjördæmalista

eða landslista sömu samtaka.

Fjórði kafli frumvarpsins ber heitið Forseti Íslands. Kaflinn telur 10 ákvæði. Þar kemur

m.a. fram að forseti skuli hafa meðmæli minnst eins af hundraði kosningabærra manna

og mest tveggja af hundraði. Fram kemur að forseti skuli ekki sitja lengur en þrjú

kjörtímabil. Þá er kveðið á um að forseti Alþingi sé staðgengill forseta Íslands geti hann

ekki gegnt störfum sínum um sinn vegna heilsufars eða öðrum ástæðum. Í núgildandi

stjórnarskrá eru staðgenglar forsetans þrír.

Fimmti kafli frumvarpsins ber heitið Ráðherra og ríkisstjórn. Kaflinn telur 12 ákvæði.

Meðal nýmæla í kaflanum er að enginn getur gegnt sama ráðherraembætti lengur

en í átta ár. Alþingi kýs forsætisráðherra. Ráðherrar hafa ekki atkvæðisrétt á þingi.

Sé alþingismaður skipaður ráðherra víkur hann úr þingsæti á meðan hann gegnir

embættinu og varamaður tekur sæti hans. Þá er kveðið á um upplýsinga- og

sannleiksskyldu ráðherra.Ráðherrar og önnur stjórnvöld veita embætti er lög mæla og

við skipan í embætti skuli hæfni og málefnaleg sjónarmið ráða. Loks er kveðið á um

að ráðherra sé veitt lausn úr embætti ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um

vantraust á hann. Ríkisstjórn er veitt lausn ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um

vantraust á forsætisráðherra.

Sjötti kafli frumvarpsins ber heitið Dómsvald og telur sjö ákvæði. Í kaflanum kemur

fram ný grein um Hæstarétt Íslands þar sem segir að að hann sé æðsti dómstóll

ríkisins og hafi endanlegt vald til að leysa úr öllum málum sem lögð eru fyrir dómstóla.

Þó megi ákveða með lögum að sérstakur dómstóll leysi endanlega úr ágreiningi um

kjarasamninga og lögmæti vinnustöðvana, þó þannig að ákvörðunum hans um refsingu

verði skotið til annarra dómstóla. Í kaflanum kemur enn fremur fram að sjálfstæði

dómstóla skuli tryggja með lögum og skipan ákæruvaldsins skuli ákveðin með lögum.

Sjöundi kafli frumvarpsins ber heitið Sveitarfélög. Kaflinn telur 4 ákvæði og í honum er

lögð áhersla á að aukið sjálfstjórnarvald sveitarfélaga. Fram kemur ný nálægðarregla

þar sem kveðið er á um að þeir þættir opinberrar þjónustu sem þykja best fyrir komið í

héraði skuli vera á hendi sveitarfélaga eða samtaka í umboði þeirra. Þá skuli skipa með

lögum rétti íbúa sveitarfélags til þess að óska eftir atkvæðagreiðslu um málefni þess.

Loks skuli haft samráð við sveitarstjórnir og samtök þeirra við undirbúning lagasetningar

sem varðar málefni sveitarfélaga.

Áttundi kafli frumvarpsins ber heitið Utanríkismál. Þar er m.a. kveðið á um að heimilt

sé að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana

sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Framsal ríkisvalds skuli ávallt

vera afturkræft. Með lögum skuli afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt

þjóðréttarsamningi felist. Þá kemur fram að samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem

feli í sér framsal ríkisvalds skuli ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða

synjunar. Niðurstaða slíkra þjóðaratkvæðagreiðslu skuli vera bindandi.

Níundi kafli frumvarpsins ber heitið Stjórnarskrárbreytingar þar kemur m.a. fram að

þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarp til breytinga á stjórnarskrá skuli það borið undir

atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.

Nýjast